Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-94
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Húsaleigusamningur
- Húsaleiga
- Aðildarskortur
- Framsal
- Skuldskeyting
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 28. júní 2022 leitar Staðarfjall ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 273/2021: Staðarfjall ehf. gegn K Apartments ehf. og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið á rætur að rekja til leigusamnings sem gerður var milli Sjöstjörnunnar ehf. sem leigusala og gagnaðila sem leigutaka. Fyrir liggur að leyfisbeiðandi varð síðar leigusali samkvæmt samningnum í stað Sjöstjörnunnar ehf., en ekki er ekki deilt um það framsal. Ágreiningurinn lýtur að framsali gagnaðila á sínum réttindum og skyldum til K People ehf. Í málinu krefst leyfisbeiðandi þess að gagnaðila verði gert að greiða sér 54.655.272 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum, að frádreginni innborgun, vegna ógreiddrar húsaleigu samkvæmt framangreindum leigusamningi.
4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Var það gert á þeim grunni að samkvæmt framsali reistu á ákvæði framangreinds leigusamnings væri gagnaðili ekki lengur aðili að þeim samningi og hafi ekki bakað sér ábyrgð á efndum samningsins síðar með öðrum hætti. Samkvæmt því og öðru sem fram var komið um samskipti aðila ætti gagnaðili ekki með réttu aðild að málinu.
5. Leyfisbeiðandi vísar til þess að gagnaðili og K People ehf. séu óskipt ábyrg fyrir hinum vangoldnu húsaleigugreiðslum eins og atvikum sé háttað. Byggir hann á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda verði ekki séð að reynt hafi á sambærileg álitaefni fyrir dómstólum á liðnum árum. Þá telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan, meðal annars um að samningssambandið hafi fyrir framsalið verið á milli leyfisbeiðanda og K People ehf.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.