Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-24
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteignasala
- Starfsábyrgðartrygging
- Verksamningur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. janúar 2019 leitar Daníel Guðmundsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. desember 2018 í málinu nr. 429/2018: Daníel Guðmundsson gegn Verði tryggingum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vörður tryggingar hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að starfsábyrgðartrygging sem hann hafi aflað sér hjá gagnaðila vegna starfa sinna sem fasteignasali taki til fjárhæðar skaðabóta sem honum hafi verið gert að greiða með dómi Hæstaréttar 6. október 2016 í máli nr. 64/2016. Í héraðsdómi sem Landsréttur staðfesti var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda með vísan til þess að í nefndum dómi Hæstaréttar hafi annars vegar verið talið að samningurinn sem leyfisbeiðandi hafi borið ábyrgð á hafi verið verksamningur og hins vegar hafi bótaskylda hans verið reist á sakarreglunni en ekki 27. gr. þágildandi laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Hafi viðskiptin því ekki getað talist fasteignaviðskipti í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup en starfsábyrgðartrygging leyfisbeiðanda hjá gagnaðila hafi ekki tekið til annars en almennrar bótaskyldu hans sem fasteignasala.
Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem fyrrnefndur samningur hafi verið kaupsamningur um fasteign og hafi bótaskylda hans samkvæmt framangreindum dómi Hæstaréttar verið reist á ábyrgð hans sem fasteignasala á grundvelli 27. gr. laga nr. 99/2004. Telur leyfisbeiðandi þá ályktun Landsréttar ranga að hér hafi ekki verið um að ræða fasteignaviðskipti í skilningi laga nr. 40/2002. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína og hafi úrslit þess verulegt almennt gildi.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn þess lúti að afmörkun á starfssviði fasteignasala og gildissviði lögbundinnar starfsábyrgðartryggingar þeirra og hafi því almennt gildi. Er beiðni um áfrýjunarleyfi tekin til greina.