Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-6

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Hótanir
  • Reynslulausn
  • Skilorð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. desember 2021, sem barst réttinum 13. janúar 2022, leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. nóvember 2021 í máli nr. 656/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hótað brotaþola með nánar tilgreindum hætti auk þess sem hann var sakfelldur fyrir vopna- og fíkniefnalagabrot fyrir vörslu nánar tilgreindra fíkniefna og vopna. Leyfisbeiðandi var hins vegar sýknaður af því að hafa brotið gegn 209. gr. og 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Með brotunum rauf hann skilyrði reynslulausnar í tvö ár og voru eftirstöðvar refsingar, 480 dagar, teknar upp vegna þess og dæmdar með, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Var refsing hans ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga óskilorðsbundið fangelsi í 18 mánuði. Honum var einnig gert að greiða brotaþola 300.000 krónur í miskabætur og hluta sakarkostnaðar auk þess sem hann sætti upptöku á munum og fíkniefnum.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu um hvort og að hvaða marki rof á reynslulausn hafi áhrif á skilorðsbindingu refsingar þegar verulegur dráttur hefur orðið á rannsókn máls og ákvörðun um saksókn. Hann telur að ástæða sé til að skilorðsbinda refsingu sína með vísan til þess að rannsókn málsins hafi hafist í ágúst 2017 en hann hafi ekki verið ákærður fyrr en 23. janúar 2020, þrátt fyrir að málsatvik hafi verið einföld. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Í þeim efnum vísar hann til þess að orðfæri sitt hafi verið að rekja til reiði, afbrýðissemi og fyrirlitningar vegna þess að hann hafi uppgötvað að brotaþoli stundaði vændi. Leggja verði til grundvallar að þessar tilfinningar hafi skýrt ummælin og að brotaþoli hafi ekki með réttu getað óttast um líf sitt, heilbrigði og velferð í skilningi 233. gr. almennra hegningarlaga.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.