Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-51

A (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Umferðarslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Viðmiðunartekjur
  • Árslaun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 3. apríl 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í máli nr. 781/2022: A gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. Gagnaðili telur skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 ekki vera uppfyllt.

3. Ágreiningur aðila lýtur að útreikningi bóta vegna líkamstjóns sem leyfisbeiðandi hlaut í umferðarslysi árið 2016. Hún telur að ákvarða eigi árslaun hennar sérstaklega við útreikning bóta í samræmi við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem aðstæður hennar hafi verið óvenjulegar í skilningi ákvæðisins.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í málinu lá fyrir að leyfisbeiðandi var í fæðingarorlofi á slysdegi og hafði flutt skömmu fyrir slysið ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna. Í héraðsdómi kom fram að leyfisbeiðandi hefði sagt upp starfi sínu á Indlandi áður en hún fluttist búferlum til Bandaríkjanna. Ljóst væri að hún hefði ekki verið á vinnumarkaði í Bandaríkjunum á slysdegi og ekki verið með atvinnuleyfi þar og muni aldrei hafa fengið slíkt leyfi. Gögn málsins bæru með sér að hún hafi verið með tímabundið dvalarleyfi vegna maka síns sem hafði þar atvinnuleyfi. Taldi dómurinn að á slysdegi hefðu ekki verið fyrirséðar slíkar breytingar á högum leyfisbeiðanda sem réttlætt gætu beitingu undanþáguákvæðis 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og aðstæður hennar fimm árum eftir slysið breyttu ekki þeirri niðurstöðu. Nægðu búferlaflutningar einir og sér ekki til þess að talið yrði að slíkar breytingar hefðu orðið á högum leyfisbeiðanda að undantekningarreglunni yrði beitt. Þá var ekki fallist á að uppfyllt væri hið sjálfstæða skilyrði ákvæðis 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um tilvist annars og réttari mælikvarða á framtíðartekjur leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins varði sig miklu og hún sé bersýnilega röng að efni til auk þess sem niðurstaðan geti haft verulegt almennt gildi. Niðurstaða málsins hafi fordæmisgildi um hvort miða beri óvenjulegar aðstæður við slysdag eða annað tímabil. Niðurstaðan hafi jafnframt fordæmisgildi um réttmætt viðmið um líklegar framtíðartekjur. Leyfisbeiðandi vísar til þess að búferlaflutningar hennar feli í sér óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og mótmælir því að ekki sé unnt að miða við tekjur hennar í starfi í Kanada þar sem hún hóf störf fimm árum eftir slysið enda hafi hún verið óvinnufær um langt skeið í kjölfar þess. Hafi því verið rétt að horfa til atvinnuþátttöku eftir að óvinnufærni lauk.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.