Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-267

Hreggviður Þorsteinsson (Ásgeir Þór Árnason lögmaður)
gegn
ríkisskattstjóra (Snorri Olsen ríkisskattstjóri)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Birting
  • Sameignarfélag
  • Opinber gjöld
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 26. september 2019 leitar Hreggviður Þorsteinsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 16. sama mánaðar í málinu nr. 561/2019: Hreggviður Þorsteinsson gegn ríkisskattstjóra, á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ríkisskattstjóri leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. júlí 2019 verði felldur úr gildi en með honum var bú hans tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu gagnaðila, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Krafa gagnaðila var tilkomin vegna ógreiddra opinberra gjalda sameignarfélagsins Endurskoðunar HGÞ sf. og er leyfisbeiðandi sameigandi þess félags. Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Ágreiningur aðili lýtur einkum að því hvort að birting greiðsluáskorunar hafi uppfyllt skilyrði 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. XIII. kafla laga nr. 91/1991, hvort krafa gagnaðila sé fyrnd og hver sé skuldari hennar.

Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi almennt fordæmisgildi. Í fyrsta lagi sé deilt um gildi birtingar á greiðsluáskorun gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda en í ljós hafi verið leitt að sá aðili sem tók við birtingu hennar hafi verið tilkvaddur af stefnuvotti, hafi lagt samrit hennar í ónýtan póstkassa og hafi engan reka gert að því að koma henni í hendur leyfisbeiðanda með öðrum hætti. Leyfisbeiðanda hafi þannig ekki gefist kostur á að lýsa því yfir skriflega, innan lögmælts þriggja vikna frests, að hann yrði fær um að greiða opinber gjöld félagsins. Í öðru lagi sé ágreiningur um það hvort gagnaðili hafi krafið leyfisbeiðanda um greiðslu opinberra gjalda Endurskoðunar HGÞ sf. þannig að skilyrðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög hafi verið uppfyllt. Í þriðja lagi sé ágreiningur um það hvort gagnaðili teljist vera lánardrottinn og leyfisbeiðandi skuldari í skilningi 5. töluliðar 2. mgr. 56. gr. laga nr. 21/1991. Að lokum sé ágreiningur með aðilum um það hvort krafa gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda, sem félagsmanns í sameignarfélaginu, hafi fyrnst þrátt fyrir að gagnaðili hafi slitið fyrningu gagnvart félaginu. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðni um kæruleyfi því hafnað.