Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-368

Jónas Rúnar Sigfússon (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lán
  • Veðskuldabréf
  • Endurgreiðsla
  • Skuldajöfnuður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 20. desember 2019 leitar Jónas Rúnar Sigfússon leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. nóvember sama ár í málinu nr. 118/2019: Jónas Rúnar Sigfússon gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta höfðaði gagnaðili á hendur leyfisbeiðanda til greiðslu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum frá 2007 og 2008 milli leyfisbeiðanda og Landsbanka Íslands hf. en kröfur vegna þeirra komust í eigu gagnaðila í október 2008. Lánin voru gengistryggð og höfðu tvívegis verið endurútreiknuð á grundvelli dóma Hæstaréttar um ólögmæti slíkra lána og gildi fullnaðarkvittana.

Er óumdeilt að í kjölfar sölu leyfisbeiðanda á fasteign sinni var söluandvirðinu varið til kaupa á peningabréfum sem síðar voru handveðsett Landsbanka Íslands hf. til tryggingar greiðslu á skuldum leyfisbeiðanda. Þegar peningamarkaðssjóðum bankans var slitið í október 2008 var andvirði hlutar leyfisbeiðanda lagt inn á óbundinn innlánsreikning í hans nafni. Gagnaðili gekk að fyrrgreindri innstæðu 1. mars 2017 og ráðstafaði sem innborgun á fyrra lánið.

Í málinu byggði leyfisbeiðandi einkum á því að lánssamningarnir væru óskuldbindandi þar sem þeir væru hluti af vaxtaviðskiptum hans við Landsbanka Íslands hf. og meta yrði samningana í því samhengi. Þá byggði hann á því að lánssamningunum skyldi vikið til hliðar á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur gagnaðila. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um annað en tímamark skuldajöfnunar gagnaðila. Var vísað til þess að á gagnaðila hefði hvílt sú tiltillitsskylda gagnvart leyfisbeiðanda að ganga fyrr að innstæðunni.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi annars vegar um form, efni og framkvæmd skiptasamninga og hins vegar um skyldur fjármálastofnana í tengslum við afleiðuviðskipti einstaklinga. Í málinu reyni á túlkun á ákvæðum þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og meginreglu um tillitsskyldu fjármálafyrirtækja. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í þeim efnum vísar hann í fyrsta lagi til þess að Landsréttur hafi ranglega hafnað því að um vaxtaskiptasamning hafi verið að ræða. Hvorki sé gerð krafa um að slíkur samningur sé skriflegur né að uppgjör fari fram með ákveðnum hætti. Í öðru lagi hafi borið að hafna dráttarvaxtakröfu gagnaðila sökum þess hve dregist hafi að innleysa innstæðu á handveðsettum reikningi. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.