Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-18
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Útboð
- Verðtrygging
- Virðisaukaskattur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. janúar 2019 leitar Ósafl sf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. desember 2018 í málinu nr. 281/2018: Vaðlaheiðargöng hf. gegn Ósafli sf. og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vaðlaheiðargöng hf. leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu vangoldinna verklauna að fjárhæð 52.533.838 krónur úr hendi gagnaðila. Í kjölfar útboðs árið 2011 gerði gagnaðili verksamning við leyfisbeiðanda um gerð svonefndra Vaðlaheiðarganga. Í útboðslýsingu kom fram að öll einingarverð í tilboði skyldu vera heildarverð í íslenskum krónum með virðisaukaskatti. Einnig kom þar fram að staðallinn ÍST30:2003 skyldi vera hluti verksamningsins en í grein 31.12 í staðlinum sagði að báðir aðilar gætu krafist breytinga á samningsfjárhæð ef á samningstímabilinu yrðu breytingar á lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum sem hefðu áhrif á kostnað sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegluðu ekki. Ágreiningur aðila snýr að því hvort gagnaðila hafi verið heimilt lækka verklaun til leyfisbeiðanda vegna lækkunar virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% á árinu 2015. Héraðsdómur Reykjavíkur tók kröfu leyfisbeiðanda til greina en með framangreindum dómi Landsréttar var gagnaðili á hinn bóginn sýknaður af kröfu hans.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til. Vísar hann í því sambandi til þess að ákvæði verksamningsins séu skýr um að áhætta vegna breytts virðisaukaskatts hvíli á verkkaupa enda hafi í tilboðinu verið um að ræða bindandi verð með virðisaukaskatti. Þá hafi í dómi Landsréttar ranglega verið lagt til grundvallar að virðisaukaskattur falli undir kostnað í skilningi fyrrnefndrar greinar í ÍST30:2003 og sé sú skýring í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar. Jafnframt sé rangt sem þar komi fram að leyfisbeiðandi hafi fengið greiddar frá verkkaupa mun hærri verðbætur á samningsfjárhæðina en hann hefði fengið ef lagabreytingar hefðu ekki komið til, án þess að kostnaður hans hafi hækkað. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína auk þess sem það hafi verulegt almennt gildi enda hafi umrædd lagabreyting áhrif á fjölda annarra verksamninga.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að hér reyni á álitaefni um ákvörðun endurgjalds samkvæmt verksamningi sem hafi verulegt almennt gildi. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.