Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-137

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp
  • Sakhæfi
  • Geðrannsókn
  • Refsiákvörðun
  • Miskabætur
  • Játning
  • Réttlát málsmeðferð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 1. júlí 2025 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. júní sama ár í máli nr. 932/2024: Ákæruvaldið gegn X. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir manndráp, tilraun til manndráps og stórfelld brot í nánu sambandi. Leyfisbeiðandi játaði þá háttsemi sem henni var gefin að sök í ákæru en krafðist sýknu á grundvelli sakhæfisskorts. Til vara krafðist hún að henni yrði ekki gerð refsing og byggði á því að refsing myndi ekki bera árangur. Í dómi Landsréttar kom fram að ákvæði 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 geymdi undantekningu frá þeirri meginreglu að mönnum skyldi refsað fyrir afbrot sín. Það leiddi ekki til sakhæfisskorts þótt sá, sem framið hefði refsiverðan verknað, væri haldinn ranghugmyndum af völdum geðsjúkdóms nema hann hefði alls ekki verið fær um að stjórna gerðum sínum er hann vann verkið. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var leyfisbeiðandi talin sakhæf. Þá var niðurstaða héraðsdóms um að refsing myndi bera árangur einnig staðfest og henni gert að sæta 18 ára fangelsi.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant. Ekki hafi verið litið nægilega til ástands leyfisbeiðanda og ekki heldur til refsimildandi þátta sem fram komi í matsgerðum og vitnisburðum matsmanna fyrir dómi. Leyfisbeiðandi telur það alvarlega annmarka á málsmeðferðinni að verjandi hennar hafi verið stöðvaður af dómurum þegar hann vildi spyrja matsmenn spurninga til að upplýsa hvað það væri í fari leyfisbeiðanda sem leiddi til þessa voveiflega atburðar. Í dómi Landsréttar sé algerlega litið fram hjá orsökum hans. Í málum af þessum toga sé það lágmarkskrafa að leitast sé við að draga fram öll atriði sem geti skipt máli enda varði það mikilsverða hagsmuni leyfisbeiðanda.

5. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðanda og önnur atriði að því leyti sem hún byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar verður talið að úrlausn málsins, meðal annars um hvort málsmeðferð hafi verið ábótavant, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laganna. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.