Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-114
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Brenna
- Fjársvik
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 16. október 2023 leitar Mhd Badr Eddin Kreiker leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að áfrýja dómi Landsréttar 15. september sama ár í máli nr. 245/2022: Ákæruvaldið gegn Mhd Badr Eddin Kreiker. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 26. september 2023. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa borið eldhvetjandi efni á tvo aðskilda staði á veitingastað og lagt eld að þannig að eldurinn breiddist út. Þá var leyfisbeiðandi ákærður fyrir brot gegn 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa krafið vátryggingafélag um greiðslu bóta vegna eldsvoðans en félagið hafi hafnað greiðslu bóta með vísan til þess að um íkveikju hafi verið að ræða.
4. Í héraðsdómi, sem Landsréttur staðfesti með vísan til forsendna, var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir báða ákæruliði og dæmdur til fangelsisvistar í tvö ár og þrjá mánuði. Í dóminum var talið sannað að leyfisbeiðandi hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Undir rekstri málsins var aflað matsgerðar dómkvadds manns um hvort bruninn hefði haft í för með sér almannahættu. Með vísan til matsgerðar, sem ekki hefði verið hnekkt, komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að eldsvoðinn hefði haft í för með sér almannahættu. Þá taldi héraðsdómur í ljós leitt að leyfisbeiðanda hafi hlotið að vera ljóst að eldsvoðinn myndi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna. Í dóminum var jafnframt talið upplýst að leyfisbeiðandi hefði sett sig í samband við vátryggingafélag í þeim tilgangi að fá greiddar bætur vegna tjóns sem hann olli sjálfur með íkveikju af ásetningi.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu við mat á sönnun í sakamálum og þá einkum varðandi sönnunargildi matsgerða sem einhliða er aflað af lögreglu. Þá standist mat Landsréttar á sönnunargildi matsgerðar ekki þær kröfur sem gerðar eru í sakamálum og ekki sé unnt að leggja hana til grundvallar sakfellingu þegar öðrum gögnum er ekki til að dreifa. Þá hafi málið verulega almenna þýðingu við túlkun á því hvenær brot telst framið í auðgunarskyni. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til einkum þar sem ætluð brot leyfisbeiðanda séu ósönnuð og margar af mikilvægustu málsástæðum hans hafi ekki fengið umfjöllun hjá Landsrétti. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að Landsréttur hafi við mat á auðgunarásetningi í málinu vikið í verulegum atriðum frá fordæmum Hæstaréttar.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.