Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-125
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótakrafa
- Umferðarslys
- Framsal kröfu
- Lagaskil
- Réttaráhrif
- Aðildarskortur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 7. júlí 2025 leitar Beijing Titicaca Haoxing International Travel Co. Ltd. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. júní sama ár í máli nr. 405/2024: Beijing Titicaca Haoxing International Travel Co. Ltd. gegn TM tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðili verði dæmdur til að greiða honum 3.611.069 RMB (kínversk renminbi eða júan, CNY). Málið á rætur að rekja til umferðarslyss sem hópur ferðamanna á vegum leyfisbeiðanda lenti í hér á landi árið 2017. Tveir farþeganna létust af áverkum sem þeir hlutu í slysinu og greiddi leyfisbeiðandi foreldrum hinna látnu bætur vegna slyssins á grundvelli dóma sem kveðnir voru upp af dómstóli í Kína árið 2019. Leyfisbeiðandi höfðaði í kjölfarið mál á hendur TM hf. og krafðist greiðslu bóta vegna missis framfæranda og útfararkostnaðar, munatjóns og útlagðs kostnaðar foreldranna umfram útfararkostnað. Byggði leyfisbeiðandi á því að félagið væri réttmætur eigandi bótakrafna á hendur TM hf. og hefði eignast þær fyrir lögbundið framsal samkvæmt kínverskum lögum og í samræmi við meginreglur íslensks réttar um kröfuhafaskipti.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að sú meginregla gilti samkvæmt íslenskum rétti að erlendir dómar hefðu ekki réttaráhrif hér á landi nema svo væri mælt fyrir í lögum, svo sem lögum nr. 7/2011 um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, en Kína væri ekki aðili að þeim samningi. Þar sem íslensk lög kvæðu ekki á um að dómar, sem kveðnir væru upp af dómstólum í Kína, skyldu hafa tiltekin réttaráhrif hér á landi væru áhrif þeirra í öllu falli takmörkuð þegar leyst væri úr málum sem rekin væru fyrir íslenskum dómstólum. Auk þess hefði erlendur dómur enn takmarkaðri þýðingu en ella væri hefði gagnaðila ekki gefist kostur á að taka til varna áður en hann var kveðinn upp. Lög stæðu ekki til þeirrar niðurstöðu að leggja mætti til grundvallar við úrlausn málsins að framsal bótakröfu lægi fyrir sem gagnaðili væri bundinn af.
5. Leyfisbeiðandi telur að málið hafi verulegt fordæmisgildi um hvernig erlendur aðili sem á grundvelli samnings ber hlutlæga ábyrgð gagnvart erlendum tjónþola vegna líkams- og munatjóns á Íslandi geti krafið íslenskan tjónvald um skaðabætur fyrir íslenskum dómstólum á grundvelli lögbundins kröfuframsals í erlendum lögum sem gilda um samninginn. Þá sé málið fordæmisgefandi um rétt foreldra til bóta vegna missis framfæranda og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda enda skipuleggi leyfisbeiðandi ferðir fjölda Kínverja til Íslands. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar um íslenskan lagaskilarétt.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.