Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-111

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
A (Sigurður Sigurjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarmál
  • Skaðabótaskylda
  • Ábyrgðartrygging
  • Umferðarslys
  • Bifreiðar
  • Líkamstjón
  • Upplýsingaskylda
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 18. júní 2025 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. maí sama ár í máli nr. 194/2024: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á fullri og óskertri bótaskyldu leyfisbeiðanda á grundvelli ábyrgðartryggingar ökutækis vegna afleiðinga umferðarslyss. Lýtur ágreiningur aðila einkum að því hvort ökumaður bifreiðarinnar, sem gagnaðili var farþegi í, hafi af ásetningi ekið á ljósastaur í umrætt sinn svo og hvort gagnaðili hafi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um afleiðingar slyssins og þannig glatað rétti til bóta.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að fallast á kröfu gagnaðila. Þannig var staðfest sú niðurstaða að leyfisbeiðandi hefði hvorki fært sönnur á að árekstrinum hefði verið valdið af ásetningi né axlað þá sönnunarbyrði sem félagið bæri um að skilyrði væru til að fella niður greiðslur til gagnaðila vegna brota á upplýsingaskyldu. Fyrir Landsrétti krafðist leyfisbeiðandi aðallega ómerkingar héraðsdóms þar sem dómurinn, sem ekki hefði verið skipaður sérfróðum meðdómanda, hefði í forsendum sínum litið til læknisfræðilegra gagna og framburðar sjúkraþjálfara fyrir héraðsdómi við mat á sönnun um hvort leyfisbeiðandi hefði orðið fyrir tjóni við áreksturinn. Landsréttur taldi að þar sem gagnaðili hefði nýtt heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og í ljósi þess að ekki var deilt um læknisfræðileg álitaefni eða umfang tjónsins, hefði ekki verið þörf á sérfróðum meðdómsmanni. Var ómerkingarkröfu leyfisbeiðanda því hafnað. Þá var gagnaðili talinn hafa leitt nægar líkur að því að hann hefði orðið fyrir líkamstjóni við áreksturinn og að skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 væri fullnægt.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng, einkum um að ekki hafi verið efni til að ómerkja héraðsdóm. Af héraðsdómi megi ráða að dómarinn hafi litið til læknisfræðilegra gagna sem og framburðar sjúkraþjálfara fyrir dómi varðandi sönnun um að gagnaðili hafi orðið fyrir tjóni sem honum hafi verið ókleift að gera á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu. Þá telur leyfisbeiðandi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að gagnaðili hafi leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við áreksturinn og skilyrðum 2. mgr. 25. laga nr. 91/1991 fullnægt vera ranga. Auk þess sé niðurstaða hins áfrýjaða dóms röng að því er varðar sönnunarmat. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Málið hafi þannig verulega þýðingu um hvaða tilvik geti fallið undir skilgreiningu á vátryggingarsvikum samkvæmt lögum og skilmálum vátryggingarsamnings. Enn fremur skipti verulegu máli að dómstólar taki afstöðu til þess hvernig sönnunarbyrði skiptist milli vátryggingafélags og tjónþola í slíkum tilvikum.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.