Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-105
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Þinglýsing
- Kvöð
- Fasteign
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 8. júlí 2024 leita Jón Kr. Jóhannesson, Jón Sigurbjörnsson, Símon Jón Jóhannsson og Hafnarfjarðarkaupstaður leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, til að kæra úrskurð Landsréttar 25. júní 2024 í máli nr. 296/2024: Bindindissamtökin IOGT gegn Jóni Kr. Jóhannessyni, Jóni Sigurbjörnssyni, Símoni Jóni Jóhannssyni og Hafnarfjarðarkaupstað. Gagnaðili leggst gegn beiðninni og krefst þess að leyfisbeiðendum verði gert að greiða sér þóknun fyrir vinnu lögmanns síns vegna beiðninnar. Sú krafa við meðferð á beiðni um heimild til málskosts á sér enga lagastoð.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að felld verð úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá apríl 2023 um að afmá kvöð gagnaðila af fasteigninni Suðurgötu 7 í Hafnarfirði.
4. Héraðsdómur hafnaði kröfu gagnaðila en með úrskurði Landsréttar var krafa hans tekin til greina. Landsréttur rakti að ráðið yrði af athugasemdum með frumvarpi sem varð að þinglýsingarlögum að mistök við þinglýsingu yrðu að vera augljós svo unnt væri að beita 1. mgr. 27. gr. laganna, eftir atvikum til að afmá þinglýst réttindi. Landsréttur taldi að svo hefði ekki verið þegar sýslumaður tók hina umdeildu ákvörðun. Þar leit Landsréttur einkum til þess að þegar kvöðinni var þinglýst í júlí 2006 var skráður eigandi fasteignarinnar „Góðtemplarar í Hafnarfj“ en ekki Góðtemplarahúsið sf. og þóttu gögn málsins ekki bera með sér að augljóst hefði verið fyrir sýslumann, að virtum þeim gögnum sem fyrir honum lágu, að þar hefði verið um einn og sama aðila að ræða eða að „Góðtemplarar Hafnarfj“ gætu talist vera sjálfstæður lögaðili frekar en deild eða félagsskapur innan gagnaðila, svo sem fullyrt var í texta kvaðarinnar.
5. Leyfisbeiðendur byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem litið sé framhjá áskilnaði 1. mgr. 24. gr. þinglýsingarlaga um heimild útgefanda skjalsins til ráðstöfunar fasteignar, auk þess sem túlkun Landsréttar á heimild þinglýsingarstjóra til að leiðrétta mistök eigi sér ekki fullnægjandi stoð í 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að málið varði mikilsverða almannahagsmuni og geti haft fordæmisgildi. Þannig sé samþykki dómstóla fyrir því að skjal sé fært í þinglýsingabækur án skýrrar þinglýstrar eignarheimildar eða skýlauss samþykkis aðila sem slíkrar heimildar nýtur til þess fallið að valda töluverðri óvissu um heimild til þinglýsingar skjala um ráðstöfun fasteigna og þar með óvissu um þinglýstar eignarheimildir. Leyfisbeiðendur telja að úrskurður Landsréttar setji varhugavert fordæmi um túlkun þinglýsingalaga og skilyrði þinglýsinga með ófyrirséðum afleiðingum um skráningu, stofnun og ráðstöfun eignarréttinda.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.