Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-252

Garðabær (Ásgeir Þór Árnason lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnarskrá
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 5. desember 2018 leitar Garðabær eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember sama ár í málinu nr. E-3410/2016: Garðabær gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur úr hendi íslenska ríkisins vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir og rekja megi til þess að fjárveiting íslenska ríkisins til rekstrar nánar tilgreinds hjúkrunarheimilis í sveitarfélaginu hafi ekki verið fullnægjandi. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði íslenska ríkið af kröfu leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins geti verið fordæmisgefandi um skyldu íslenska ríkisins „til að standa straum af kostnaði við að reka starfsemi sem því er skylt að sinna samkvæmt efnislegum réttarheimildum eða á grundvelli samningsskuldbindingar þó ekki hafi verið áætlað nægt fé til þess í fjárlögum.“ Niðurstaðan kunni því að hafa almenna þýðingu um beitingu réttarreglna og samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá telur leyfisbeiðandi að þörf sé á skjótri og endanlegri úrlausn, annars vegar vegna brýnna hagsmuna sinna þar sem fjárframlög dugi ekki til rekstrarins og hins vegar vegna almennra hagsmuna sveitarfélaga, því fleiri sveitarfélög hafi gert sambærilega samninga og leyfisbeiðandi og þurft að greiða með rekstri hjúkrunarheimila vegna skorts á fjárframlagi íslenska ríkisins. Jafnframt byggir leyfisbeiðandi á því að líta beri til þess hvort líkur séu á að Hæstiréttur myndi samþykkja áfrýjun til réttarins eftir að það hefði verið dæmt í Landsrétti á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991.

Að öllu virtu er ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti. Er beiðninni því hafnað.