Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-53
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kröfugerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 11. apríl 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 28. mars 2023 í máli nr. 174/2023: A gegn Sigurði G. Guðjónssyni og SGG lögstofu ehf. og til réttargæslu Einari Gauti Steingrímssyni og Lausnum lögmannsstofu sf. Gagnaðilar láta málið ekki til sín taka.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta og dráttarvaxta úr hendi gagnaðila auk viðurkenningarkröfu sem lýtur að dráttarvöxtum af annarri fjárkröfu. Byggir sóknaraðili kröfu sína á því að varnaraðilum sé um að kenna að skaðabótakrafa hans hafi fyrnst, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. janúar 2020 í máli nr. 31/2019.
4. Með hinum kærða úrskurði var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa hluta krafna leyfisbeiðanda á hendur gagnaðilum frá dómi. Landsréttur tók fram að í umræddum dómkröfum fælist ekki annað en að gagnaðilum yrði gert að greiða leyfisbeiðanda peningaupphæð. Landsréttur vísaði til þess að ekki yrði gerð krafa um greiðslu ótiltekinnar fjárhæðar eða ónefndrar fjárhæðar að mati dómsins, heldur yrði hún að vera um tiltekna fjárhæð. Framsetning kröfugerðar leyfisbeiðanda í málinu að þessu leyti samrýmdist því ekki fyrirmælum d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra og glögga kröfugerð.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Vísar hann einkum til þess að málið hafi fordæmisgildi um hvenær dómstólum beri að fjalla um viðurkenningarkröfu þegar mögulega væri hægt að hafa uppi fjárkröfu, að hvaða atriðum dómstólar gæti af sjálfsdáðum og hvort dómstóll megi dæma kærumálskostnað umfram þann kostnað sem aðili hefur haft af því eða eðlilegt væri að hann hefði haft. Þá sé niðurstaða Landsréttar um kærumálskostnað bersýnilega röng að formi og efni og órökstudd. Loks telur leyfisbeiðandi að Landsréttur hafi í reynd vísað kröfunum frá en ekki héraðsdómur. Landsréttur hafi byggt niðurstöðu sína á öðrum forsendum en héraðsdómur og þær því einungis komið til umfjöllunar á einu dómstigi.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög 134/2022 sem tóku gildi 7. janúar 2023. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 3. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.