Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-269

A (sjálfur)
gegn
Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Greiðsluaðlögun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 27. september 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 12. sama mánaðar í málinu nr. 521/2019: A gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, á grundvelli 7. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 1. mgr. 85. gr. og 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu ákvörðunar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að synja beiðni hans um að afmá veðskuldir umfram söluverð af tilgreindu íbúðarhúsnæði í hans eigu. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Var vísað til þess að greiðsluaðlögun leyfisbeiðanda byggði á samningi við kröfuhafa og væri hann bundinn af skýru ákvæði greiðsluaðlögunarsamnings sem kvað á um að veðkröfur skyldu ekki sæta eftirgjöf í lok greiðsluaðlögunartímabils. Gæti leyfisbeiðandi þegar af þeirri ástæðu ekki fengið umrædd veðbönd máð af fasteigninni á grundvelli a-liðar 1. mgr. 21. gr. laga nr. 101/2010, sbr. 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi þar sem ekki hafi áður reynt á það fyrir dómstólum hvaða þýðingu slíkt ákvæði í greiðsluaðlögunarsamningi skuli hafa við aðstæður sem þessar. Í þeim efnum vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að umrætt ákvæði sé óljóst auk þess sem gildistími greiðsluaðlögunarsamningsins sé nú liðinn. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi grundvallarþýðingu við meðferð málsins.

Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að úrlausn um það geti haft fordæmisgildi umfram það, sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.