Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-110
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótamál
- Viðurkenningarkrafa
- Líkamstjón
- Fasteign
- Sakarmat
- Sönnun
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 18. júní 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. maí sama ár í máli nr. 238/2024: DK Hugbúnaður ehf. og VÍS tryggingar hf. gegn A og A gegn DK Hugbúnaði ehf., VÍS tryggingum hf. og Orkuveitu Reykjavíkur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu gagnaðila DK Hugbúnaðar ehf. og Orkuveitu Reykjavíkur vegna heilsutjóns á tímabilinu júní 2016 til mars 2017 vegna myglu í húsnæði gagnaðila Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vann hún hjá gagnaðila DK Hugbúnaði ehf. Þá krafðist leyfisbeiðandi viðurkenningar á greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu félagsins hjá VÍS tryggingu hf.
4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu DK Hugbúnaðar ehf. og greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu félagsins hjá VÍS tryggingum hf. Gagnaðili Orkuveita Reykjavíkur var hins vegar sýknuð af kröfum leyfisbeiðanda.
5. Með dómi Landsréttar voru gagnaðilar DK Hugbúnaður ehf. og VÍS tryggingar hf. sýknuð af kröfum leyfisbeiðanda og héraðsdómur staðfestur um sýknu Orkuveitu Reykjavíkur. Landsréttur lagði til grundvallar, með vísan til matsgerðar og annarra gagna sem lutu að heilsufari leyfisbeiðanda, að hún hefði orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna veru í húsnæðinu. Í dómi Landsréttar kom fram að við mat á háttsemi fyrirsvarsmanna Orkuveitu Reykjavíkur og DK Hugbúnaðar ehf. í kjölfar þess að mygla hefði greinst í húsnæðinu haustið 2015 yrði að miða við þær aðstæður sem þá hefðu verið fyrir hendi, þar með talda þá þekkingu sem lá fyrir um hættueiginleika myglu fyrir heilsu manna. Að teknu tilliti til aðgerða Orkuveitu Reykjavíkur svo og ráðgjafar og vitneskju sem lá fyrir um áhrif myglu á heilsufar fólks var það ekki metið fyrirtækinu til sakar að hafa ekki gripið til frekari ráðstafana en gert var. Við mat á háttsemi DK Hugbúnaðar ehf. sem vinnuveitanda leyfisbeiðanda var miðað við félagið hefði haft sömu upplýsingar um möguleg áhrif myglu á heilsu fólks og Orkuveitan. Að virtri þeirri vitneskju og þeim upplýsingum sem leyfisbeiðandi miðlaði til DK Hugbúnaðar ehf. var það ekki metið félaginu til sakar að hafa ekki útvegaði henni aðra vinnuaðstöðu eða gripið til frekari aðgerða til að vernda heilsu hennar á því tímabili sem um ræddi. Þá var ekki talið að DK Hugbúnaði ehf. hefði láðst að miðla upplýsingum sem hefðu þýðingu frá Orkuveitunni til starfsmanna sinna eða félagið brotið gegn ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eða viðeigandi reglugerðum þannig að áhrif hefðu á sakarmat í málinu. Var því ekki talið að heilsutjón leyfisbeiðanda mætti rekja til saknæmrar háttsemi gagnaðila DK Hugbúnaðar ehf.
6. Leyfisbeiðandi byggir á því dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, meðal annars varðandi tímamark gáleysismats, en lagt hafi verið til grundvallar að við mat á háttsemi gagnaðila yrði að miða við þær aðstæður sem hefðu verið fyrir hendi haustið 2015 þegar myglan greindist. Leyfisbeiðandi telur hins vegar að eðlilegra hefði verið að leggja til grundvallar þekkingu sem var fyrir hendi það tímabil sem dómkrafa hennar tekur til, það er júní 2016 til mars 2017. Ótækt sé að túlka matsgerð þannig að þekking um skaðleg áhrif myglu á heilsufar hafi ekki verið fyrir hendi á þeim tíma. Þá sé niðurstaða Landsréttar röng um sakarmat. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði verulega hagsmuni sína. Loks er vísað til þess að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi um skyldur vinnuveitanda og eiganda atvinnuhúsnæðis til þess að bregðast við aðstæðum eftir að þeir fá vitneskju um rakaskemmdir og myglu á starfsstöð.
7. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.