Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-99

Stjörnugrís hf. (Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldtaka
  • Þjónustugjald
  • Endurgreiðsla
  • Stjórnsýsla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. apríl 2021 leitar Stjörnugrís hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. mars sama ár í málinu nr. 74/2020: Stjörnugrís hf. gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um endurgreiðslu svonefnds eftirlitsgjalds sem félagið innti af hendi vegna lögboðinnar heilbrigðisskoðunar við slátrun svína frá október 2014 til október 2018, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 96/1997 um slátrun og sláturafurðir. Lagaákvæðið kvað á um að fyrir eftirlit samkvæmt lögunum skyldu sláturleyfishafar greiða eftirlitsgjald sem ekki væri hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af tilgreindum kostnaðarþáttum við eftirlitið. Fjárhæð gjaldsins var ákveðin í reglugerð nr. 567/2012 um gjaldskrá fyrir eftirlit og aðra gjaldskylda starfsemi Matvælastofnunar, sem gjaldskrá nr. 220/2018 leysti síðar af hólmi. Samkvæmt þeim báðum nam gjaldið 6,5 krónum fyrir hvert kíló af svínakjöti. Reisir leyfisbeiðandi kröfu sína einkum á því að gjaldtakan hafi verið ólögmæt þar sem gjaldið hafi verið umfram raunkostnað við eftirlit hjá honum.

4. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Vísaði rétturinn meðal annars til þess að umrætt eftirlitsgjald hefði tekið mið af kostnaði Matvælastofnunar við eftirlit fyrir árið 2011 en ekkert hafi legið fyrir um að sá útreikningur hefði verið umfram raunkostnað við eftirlit. Þó að fyrrnefnd gjaldskrá hefði ekki verið endurskoðuð reglulega á umræddu tímabili, svo sem áskilið var með lögum nr. 96/1997, bentu málsgögn ekki til þess að raunkostnaður stofnunarinnar vegna eftirlits með slátrun svína hefði lækkað á tímabilinu eða að leyfisbeiðandi hefði verið krafinn um hærri fjárhæðir en sem námu raunverulegum kostnaði við eftirlitið hjá honum. Landsréttur áréttaði að óheimilt væri að haga álagningu þjónustugjalds þannig að einn hópur notenda væri í reynd látinn niðurgreiða þjónustu fyrir annan. Hvað sem því liði ætti hver og einn gjaldandi ekki rétt á því að reiknaður væri út kostnaður við að veita þjónustu í hans tilviki sérstaklega heldur nægði að miða umrætt gjald við meðaltalskostnað við heilbrigðiseftirlit með slátrun svína hjá öllum sláturleyfishöfum. Loks vísaði rétturinn til þess að ekkert væri komið fram um að leyfisbeiðandi hefði greitt gjöld til gagnaðila umfram kostnað af eftirliti með slátrun svína á starfsstöð hans. Af þeim sökum þyrfti ekki að taka afstöðu til þess hvort við álagningu gjaldsins hefði verið lögmætt að miða skiptingu heildarkostnaðar vegna eftirlitsins við þyngd slátraðs kjöts í stað annars mælikvarða.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um heimildir til innheimtu þjónustugjalds og fyrirkomulag þess. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til í fyrsta lagi þar sem hann byggi á brotakenndum gögnum sem renni ekki stoðum undir lögmæti gjaldtökunnar. Í öðru lagi þar sem ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997 hafi verið túlkað með rýmri hætti en skilyrði séu fyrir enda kveði það á um að fjárhæð gjaldsins megi ekki vera hærra en sem nemi „raunkostnaði“ við eftirlitið. Óumdeilt sé að raunkostnaður hafi ekki legið fyrir við innheimtu umrædds gjalds og þar með hafi skort lögmætan grundvöll fyrir útreikning fjárhæðar þess. Þá hafi Landsréttur ranglega hafnað þeirri málsástæðu leyfisbeiðanda að óheimilt væri að miða umrætt gjald við meðaltalskostnað við heilbrigðiseftirlit með slátrun svína hjá öllum sláturleyfishöfum. Í þriðja lagi hafi sönnunarbyrði verið ranglega lögð á leyfisbeiðanda um að innheimt eftirlitsgjald hafi verið of hátt en með réttu hefði gagnaðili átt að bera sönnunarbyrði fyrir því að samræmi væri milli fjárhæðar þjónustugjaldsins og hinnar veittu þjónustu. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni leyfisbeiðanda.

6. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur þó vafa leika á að skilyrði 176. gr. laga nr. 91/1991 um veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Að mati gagnaðila fæst ekki séð að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Löng og ítarleg dómaframkvæmd Hæstaréttar sé þegar fyrir hendi um heimildir til innheimtu þjónustugjalds og fyrirkomulag þess. Dómur Landsréttar sé í samræmi við þá dómaframkvæmd og ekki verði séð að dómur Hæstaréttar í málinu myndi bæta verulegu við þá framkvæmd. Gagnaðili mótmælir því að Landsréttur hafi lagt sönnunarbyrði ranglega á leyfisbeiðanda. Loks bendir hann á að hagsmuni leyfisbeiðanda skuli meta í því ljósi að óumdeilt sé að hann hafi notið þess eftirlits sem umrætt gjald varðar.

7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið, né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.