Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-4

A (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Akureyrarbæ (Berglind Svavarsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Áminning
  • Stjórnsýsla
  • Meðalhóf
  • Andmælaréttur
  • Kjarasamningur
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. janúar 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. desember 2022 í máli nr. 555/2021: A gegn Akureyrarbæ. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að skrifleg áminning sem henni var veitt í starfi verði felld úr gildi og gagnaðila gert að greiða henni 5.000.000 króna í miskabætur.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að ákvörðun um áminningu væri matskennd stjórnvaldsákvörðun og að játa yrði þeim sem hana tæki nokkurt svigrúm við matið. Slíkar ákvarðanir sættu ekki öðrum takmörkunum en leiddu af lögum og grunnreglum stjórnsýsluréttar, þar með talið réttmætisreglunni. Landsréttur vísaði til þess að í aðdraganda áminningarinnar hefði leyfisbeiðandi fengið þrjú fylgiskjöl en í þeim hefðu verið tilgreind tilvik sem voru tilefni hennar. Sýnt hefði verið fram á að nægar upplýsingar hefðu legið fyrir svo unnt væri að leggja mat á hvort skilyrði hefðu verið uppfyllt til að veita leyfisbeiðanda áminningu. Af gögnum málsins mætti ráða að grundvöllur áminningarinnar hefði verið almennur vandi en ekki einstakt afmarkað tilvik. Þótti nægjanlega í ljós leitt að fullnægt hefði verið skilyrðum greinds kjarasamningsákvæðis til að veita áminningu. Þá var talið að ákvörðunin hefði verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum, meðalhófs hefði verið gætt og öðrum reglum stjórnsýsluréttar fylgt.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, einkum þar sem Landsréttur hafi staðfest hinn áfrýjaða dóm en nánast ekkert tekið á þeim atriðum sem áfrýjun byggi á. Hún vísar í fyrsta lagi til þess að fyrir héraðsdómi hafi verið byggt á því af hálfu gagnaðila að hún hefði brotið gegn verklagsreglum og lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009 með skráningum í sjúkraskrá. Héraðsdómur hafi hins vegar vitnað í lögin með röngum hætti og í ljós komið að engar verklagsreglur hafi verið til hjá vinnuveitanda hennar um skráningu í sjúkraskrá. Hún hafi því krafist endurskoðunar á þessu atriði fyrir Landsrétti en í dómi Landsréttar hafi að engu leyti verið vikið að þessari málsástæðu. Þá hafi ekki verið fjallað um málsástæðu leyfisbeiðanda um vanhæfi annars hjúkrunarfræðings sem starfað hafi við hlið hennar en síðar orðið yfirmaður hennar. Enn fremur hafi ekki verið fjallað um þá málsástæðu hennar að ekkert tilvikanna hafi verið rannsakað sérstaklega eða málið í heild. Auk þess hafi ekki verið vikið að málsástæðum hennar um að engin tilvikaskrá hafi verið til hjá vinnuveitanda hennar sem senda hafi átt embætti Landlæknis. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi greinarinnar. Beiðninni er því hafnað.