Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-45

Heflun ehf. (Kristinn Bjarnason lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Hannes J. Hafstein lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lánssamningur
  • Leigusamningur
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 28. mars 2024 leitar Heflun ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 827/2022: Heflun ehf. gegn Landsbankanum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið varðar ágreining um skuldauppgjör. Í aðalsök varðar málið innheimtukröfu gagnaðila á grundvelli tveggja óuppgerðra lána. Í gagnsök varðar það kröfur leyfisbeiðanda vegna 13 lánssamninga. Annars vegar viðurkenningarkröfu um að tveir samninganna hefðu falið í sér lán með ólögmætri gengistryggingu og hins vegar fjárkröfu með vísan til uppgjörs og endurútreiknings samninganna. Fjárkrafa leyfisbeiðanda byggir meðal annars á því að ekki hafi verið uppi skilyrði til riftunar samninganna, að verðmat vinnuvéla sem gagnaðili leysti til sín við uppgjör hefði verið of lágt og að við endurútreikning 11 samninganna árið 2014 hefði verið byggt á lægri fjárhæð en sem næmi verðmæti vinnuvélanna. Leyfisbeiðandi lýsir því yfir að verði honum veitt leyfi til áfrýjunar muni ágreiningur málsins fyrir Hæstarétti eingöngu lúta að því hvort hann eigi gagnkröfu á hendur gagnaðila vegna 11 fjármögnunarleigusamninga og þá hversu háa.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á fjárkröfu gagnaðila í aðalsök og hann sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda í gagnsök. Þá var viðurkenningarkröfu leyfisbeiðanda vísað frá héraðsdómi. Um fjárkröfu leyfisbeiðanda í gagnsök leit Landsréttur til þess að skilyrði hefðu verið til riftunar samninganna vegna verulegra vanefnda leyfisbeiðanda. Þá taldi Landsréttur að við uppgjör aðila hefði verið eðlilegt að taka mið af verðmati vinnuvélanna sem aflað hafði verið við riftun samninganna. Í dóminum kom fram að krafa vegna 11 af samningunum væri uppgjörskrafa í skilningi 18. gr. og bráðabirgðaákvæðis XIV með lögum nr. 38/2001 þar sem gagnaðili hefði við endurútreikning þeirra verðmetið tækin og afborganir leyfisbeiðanda með öðrum hætti en við eldra uppgjör og fjárkrafa samkvæmt þeim ófyrnd. Hið sama ætti hins vegar ekki við um tvo af samningunum, sem ekki fólu í sér ólögmæta gengistryggingu, og krafa vegna þeirra væri því fyrnd. Landsréttur taldi að miða ætti útreikning eftirstöðva samninganna 11 við framreiknaða stöðu samkvæmt endurútreikningi gagnaðila árið 2014 en ekki við stöðu á riftunardegi. Landsréttur leit til þess að verðmæti vinnuvélanna við endurútreikning lánanna hefði ekki verið í samræmi við eldra verðmat heldur mun lægra. Sá munur væri óútskýrður og gagnaðili bundinn af eldra verðmatinu. Það var þó ekki talið breyta því að leyfisbeiðandi hafði ekki sýnt fram á að hann ætti kröfu á hendur gagnaðila miðað við framangreindar reikniforsendur eða lagt fram útreikninga miðað við þær. Þá taldi Landsréttur ljóst að leyfisbeiðandi væri enn í skuld við gagnaðila á umræddu tímamarki þótt verðmatið hefði verið lagt til grundvallar við uppgjörið.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur bæði að efni og formi er varðar niðurstöðu um gagnkröfu leyfisbeiðanda. Hann vísar til þess að í dóminum komi fram að við endurútreikning lánanna hefði verið rétt að miða við eldra verðmat þó síðan segi að útreikninga skorti sem samræmist mati réttarins á forsendum kröfunnar. Leyfisbeiðandi telur þennan hluta dómsins bersýnilega rangan og vísar til þess að allar tölulegar forsendur fyrir útreikningi á kröfunni hafi komið fram í greinargerð hans. Þá hafi leyfisbeiðandi fyrir Landsrétti haft uppi varakröfu sem byggði á sömu forsendum og Landsréttur taldi að leggja ætti til grundvallar sem jafnframt sýndu fram á að leyfisbeiðandi ætti endurkröfu á hendur gagnaðila. Þar að auki hafi Landsrétti borið, með vísan til 104. gr. laga nr. 91/991, að beina spurningum til aðila eða benda þeim á nauðsyn þess að afla frekari gagna ef rétturinn taldi málið ekki nægilega upplýst eða að öðrum kosti vísa gagnkröfunni frá dómi vegna vanreifunar. Leyfisbeiðandi segir tilgang áfrýjunar vera að fá dóm Landsréttar ómerktan eða fá efnisdóm um gagnkröfuna til skuldajöfnunar við aðalkröfu gagnaðila. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína en niðurstaða þess geti ráðið úrslitum um hvort hann hafi fjárhagsstöðu til að halda starfsemi sinni áfram.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að á málsmeðferð eða niðurstöðu Landsréttar kunni að vera þeir annmarkar að rétt sé að heimila áfrýjun málsins, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.