Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-128
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Sekt
- Vararefsing
- Skilorð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 2. apríl 2020 leitar Fríða Maríanna Stefánsdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. mars sama ár í málinu nr. 474/2019: Ákæruvaldið gegn Fríðu Maríönnu Stefánsdóttur, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með áðurnefndum dómi Landsréttar var staðfestur dómur héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum í starfi sínu sem stjórnarmaður og prókúruhafi Reisum byggingarfélags ehf. látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins, sem og virðisaukaskatti þess, skilagreinum þess vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðslu sem haldið var eftir að launum starfsmanna félagsins, allt innan lögmælts tíma. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í átta mánuði, en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var henni gert að greiða 50.500.000 króna sekt í ríkissjóð.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hún til þess að niðurstaða héraðsdóms hvað varðaði báða ákæruliði, sem Landsréttur staðfesti, hafi einkum verið byggð á almennum starfsskyldum stjórnarmanna samkvæmt 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og að niðurstaðan virðist hafa byggst á hlutlægri refsiábyrgð. Telur leyfisbeiðandi þessar forsendur rangar og því ástæðu til að ætla að dómur Landsréttar sé rangur að efni til. Þá telur leyfisbeiðandi að verulegir annmarkar hafi verið á rannsókn málsins sem Landsréttur hafi enga efnislega afstöðu tekið til. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði mikilvæga hagsmuni hennar og að úrlausn Hæstaréttar hafi verulegu þýðingu og fordæmisgildi.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.