Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-15

B ehf. (Anton B. Markússon lögmaður)
gegn
A (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Skaðabætur
  • Álag á miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 7. febrúar 2024 leitar B ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. janúar sama ár í máli nr. 741/2022: A gegn B ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um skaða- og miskabætur vegna ólögmætrar og fyrirvaralausrar riftunar á ráðningasamningi hennar og leyfisbeiðanda.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfu gagnaðila en með dómi Landsréttar var fallist á kröfu hennar um skaða- og miskabætur. Gagnaðila var sagt upp störfum vegna hótana barnsföður hennar í garð samstarfsmanns hennar. Eftir fund sem fyrirsvarsmenn leyfisbeiðanda héldu með gagnaðila af því tilefni bárust samstarfsmanninum á ný hótanir. Töldu fyrirsvarsmenn leyfisbeiðanda gagnaðila hafa upplýst barnsföður sinn um það sem rætt hefði verið á fundinum og með því brotið gegn trúnaðarskyldum sínum og riftu af þeim sökum samningnum. Í dómi Landsréttar kom fram að skilja yrði bréf leyfisbeiðanda þar sem tilkynnt var um riftun á ráðningarsamningi með þeim hætti að ákvörðunin hefði verið reist á því að gagnaðili hefði með einhverjum hætti borið ábyrgð á hótunum barnsföður hennar. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði ekki fært fram sönnun fyrir því að gagnaðili hefði hvatt barnsföðurinn til hótana né að hún hefði með öðrum hætti borið ábyrgð á þeim. Þá var ekki talið að sú háttsemi hennar að hafa samband við barnsföðurinn í kjölfar fundarins og biðja hann um að láta af hótunum hefði falið í sér brot á starfsskyldum hennar. Samkvæmt þessu var fallist á að riftun ráðningarsamningsins hefði verið ólögmæt.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Það varði einkum hvaða sönnunarkröfur séu gerðar til vinnuveitanda á almennum vinnumarkaði þegar hann á grundvelli stjórnunarréttar síns leggi mat á hvort starfsmaður hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni sem réttlæti fyrirvaralausa brottvikningu. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að efni til. Rétturinn leggi ranglega til grundvallar að leyfisbeiðandi hafi byggt á því að gagnaðili hafi hvatt barnsföður sinn til að hóta samstarfsmanni hennar. Þá styðji ekkert í málinu þá niðurstöðu að gagnaðili hafi að fundi loknum haft samband við barnsföður sinn til að biðja hann um að hætta hótununum.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.