Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-144

Björn Leví Óskarsson (Halldór Kr. Þorsteinsson lögmaður)
gegn
Vinnumálastofnun og íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fæðingarorlof
  • EES-samningurinn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 13. október 2025 leitar Björn Leví Óskarsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september sama ár í máli nr. E-3268/2025: Björn Leví Óskarsson gegn Vinnumálastofnun og íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni og leggur í mat Hæstaréttar hvort fyrir hendi séu skilyrði til að veita áfrýjunarleyfi.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 8. maí 2025 þar sem staðfest var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs 23. janúar 2025 um að synja umsókn leyfisbeiðanda um greiðslur úr sjóðnum. Þá krefst leyfisbeiðandi þess að viðurkennt verði með dómi að hann eigi rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Leyfisbeiðanda var synjað um greiðslur á grundvelli þess að hann uppfyllti ekki skilyrði 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof um þátttöku á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu 10. maí til 31. júní 2024. Í úrskurðinum var rakið að leyfisbeiðandi hefði starfað hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Belgíu á tímabilinu 1. september 2023 til 31. júlí 2024 og að óumdeilt væri að tekjur hans þar hefðu verið undanþegnar tekjuskatti og greiðslu tryggingagjalds. Hafi hann auk þess ekki verið tryggður þar í landi samkvæmt staðfestingu belgísku tryggingastofnunarinnar.

4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda og taldi ekki unnt að fallast á með honum að skýra skyldi hugtakið aðildarríki svo rúmt að Eftirlitsstofnun EFTA félli þar undir. Aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið væru sérstaklega tilgreind í lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, og þar væri um tæmandi talningu að ræða. Leyfisbeiðandi hefði ekki verið starfsmaður ríkis sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á framangreindu tímabili og ekki átti rétt til fæðingarorlofs samkvæmt lögum slíks aðildarríkis. Hann hefði hins vegar fallið undir innra kerfi Eftirlitsstofnunar EFTA og átt samkvæmt því meðal annars rétt á fæðingarorlofi sem starfi hans fylgdu. Þá var ekki fallist á það með leyfisbeiðanda að brotið hefði verið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu um beitingu réttarreglna og fordæmisgildi fyrir einstaklinga sem vinni hjá alþjóðastofnunum. Málið fjalli um túlkun laga um fæðingar- og foreldraorlof í ljósi alþjóðaskuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Textaskýring á 2. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 leiði ekki til þess að synja beri leyfisbeiðanda um fæðingarorlof. Hins vegar túlki héraðsdómur ákvæðið þröngri skýringu í andstöðu við túlkunarreglu 3. gr. laga nr. 2/1993 og skuldbindingar ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að sú forsenda sem héraðsdómur gefi sér um réttarstöðu leyfisbeiðanda samkvæmt belgískum rétti sé röng. Að lokum bendir leyfisbeiðandi á að hann hafi verulega hagsmuni af því að málið fái skjóta efnismeðferð. Það varði rétt hans til töku fæðingarorlofs með dóttur sinni og sá réttur falli niður 10. nóvember 2026.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða samfélagslega þýðingu að öðru leyti í skilningi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni leyfisbeiðanda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því hafnað.