Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-103
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Sönnun
- Refsiákvörðun
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 20. júlí 2023 leitar Finnur Þ. Gunnþórsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní 2023 í máli nr. 244/2022: Ákæruvaldið gegn Finni Þ. Gunnþórssyni. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa með ofbeldi og nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola án hennar samþykkis.
4. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda. Dómurinn vísaði til þess að ekki yrði litið svo á að samþykki það sem brotaþoli hefði veitt til samfara eða annarra kynferðismaka hefði tekið til hvers kyns kynferðisathafna þar sem beitt væri mikilli hörku, niðurlægingu og öðru ofbeldi. Af þessu leiddi að þeim sem hygðist beita ofbeldi í kynlífi ætti að vera ljóst að ganga þyrfti ríkt eftir því að skýrt og ótvírætt samþykki lægi fyrir. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjú ár auk þess sem brotaþola voru dæmdar miskabætur og leyfisbeiðanda gert að greiða sakarkostnað málsins.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um afturköllun samþykkis í málum sem varði brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga eins og ákvæðinu hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 16/2018. Ekki hafi reynt á túlkun þess fyrir Hæstarétti með þeim hætti sem um ræði í málinu. Þá telur leyfisbeiðandi verknaðarlýsingu ákæru ekki nægilega skýra en fyrir liggi að samþykki brotaþola hafi legið fyrir við upphaf kynferðismaka. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að í dómi héraðsdóms hafi niðurstaðan orðið sú að ósannað væri að leyfisbeiðandi hefði gerst sekur um að hafa rifið mörgum sinnum í hár brotaþola og troðið hönd sinni mörgum sinnum upp í munn hennar, svo sem ákært hefði verið fyrir. Með dómi Landsréttar hefði leyfisbeiðandi hins vegar verið sakfelldur fyrir framangreint og refsing hans að auki þyngd um sex mánuði. Þar sem með dómi Landsréttar hafi sýknu að hluta verið snúið í sakfellingu beri að fallast á beiðnina með vísan til lokamálsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggist jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Af framangreindu er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.