Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-34
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vinnuslys
- Bótaskylda
- Viðurkenningarkrafa
- Vinnuveitendaábyrgð
- Örorka
- Saknæmi
- Ábyrgðartrygging
- Líkamstjón
- Grunnskóli
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 4. mars 2025 leita VÍS tryggingar hf. og B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 6. febrúar sama ár í máli nr. 844/2023: A gegn VÍS tryggingum hf. og B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu B hjá VÍS tryggingum hf. vegna líkamstjóns sem hún hlaut í starfi sínu sem grunnskólakennari hjá grunnskóla C árið 2017. Gagnaðili varð fyrir árás af hálfu nemanda í matsal grunnskólans.
4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila og taldi að frumorsök atviksins og tjóns gagnaðila hafi verið röng viðbrögð hennar sjálfrar og það líkamlega inngrip sem hún ákvað að beita í umrætt skipti. Landsréttur taldi á hinn bóginn að því yrði ekki fundin stoð að gagnaðili hefði brotið gegn ákvæðum reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Ekki hefði verið um að ræða líkamlegt inngrip í refsingarskyni heldur hefði hún ætlað að grípa inn í óásættanlega og mögulega skaðlega hegðun nemandans. Þá var litið til þess að áður en atvikið átti sér stað hafði kennari, sem sérstaklega var ráðinn til að sinna nemandanum, tekið við umsjónarkennslu og yrði ekki séð að annar starfsmaður hefði tekið við sambærilegri umsjón með nemandanum. Þá leit Landsréttur til þess að hvorki atvikið sem leiddi til tjóns gagnaðila né fyrri atvik sem vörðuðu nemandann, og kölluðu á líkamlegt inngrip, hefðu verið skráð í samræmi við 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar. Sú vanræksla hefði leitt til þess að skólastjórnendur hefðu ekki haft rétta mynd af stöðu nemandans og þörf á ráðstöfunum til að gæta að öryggi nemenda og kennara innan skólans. Í ljósi þess var talið að saknæm vanræksla skólastjórnenda hefði átt þátt í því að gagnaðili varð fyrir varanlegu líkamstjóni af völdum nemandans. Var því viðurkennd skaðabótaskylda B og réttur gagnaðila til greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu þess hjá VÍS tryggingum hf.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi um ábyrgð og skyldur skólastjórnenda og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Leyfisbeiðendur telja það mat Landsréttar að aðgerðir gagnaðila og líkamlegt inngrip hennar hafi verið forsvaranlegt sé bersýnilega rangt. Gagnaðili hafi ákveðið að stöðva hlaup nemandans, sem ósannað sé að hafi valdið sérstakri hættu, með því að grípa í hann. Það hafi gengið þvert á verklagsreglur um viðbrögð við erfiðri hegðun, ákvæði grunnskólalaga og reglugerðar nr. 1040/2011. Leyfisbeiðendur telja að hið ólögmæta og ónauðsynlega inngrip gagnaðila gagnvart nemandanum hafi verið frumorsök líkamstjóns hennar. Þá telja leyfisbeiðendur þá niðurstöðu Landsréttar að skólastjórnendur hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að tryggja ekki eftirlit og umsjón með nemandanum ranga enda hafi verið gripið til umfangsmikilla aðgerða vegna hans. Að lokum beri ekki að virða skort á skráningu leyfisbeiðendum í óhag enda séu atvik málsins að fullu upplýst.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.