Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-154

Sigurður G. Guðjónsson (Garðar G. Gíslason lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattur
  • Tekjuskattur
  • Einkahlutafélag
  • Endurákvörðun
  • Rannsóknarregla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 1. desember 2022 leitar Sigurður G. Guðjónsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 4. nóvember 2022 í máli nr. 424/2021: Sigurður G. Guðjónsson gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felldur verði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2012 og að gagnaðila verði gert að endurgreiða honum þá fjárhæð sem honum hafði verið gert að greiða í kjölfar endurákvörðunarinnar.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að ekki hefði verið sýnt fram á að ályktanir skattrannsóknarstjóra af skriflegum gögnum málsins hefðu verið óforsvaranlegar eða rangar um úttektir leyfisbeiðanda á fjármunum sem tilheyrðu einkahlutafélagi hans. Þær ályktanir hefðu verið settar fram í frumskýrslu sem leyfisbeiðanda hefði verið gefið færi á að andmæla. Bæði í skýrslu skattrannsóknarstjóra og úrskurði ríkisskattstjóra hefði verið tekin rökstudd afstaða til athugasemda leyfisbeiðanda. Ekki yrði séð að þau gögn sem leyfisbeiðandi hefði lagt fram með þeim athugasemdum hefðu stutt staðhæfingar hans og þær hefðu ekki heldur fengið stoð í fyrirliggjandi gögnum. Gögn málsins bæru ekki annað með sér en að ríkisskattstjóri hefði tekið sjálfstæða afstöðu til atvika, að fenginni niðurstöðu skattrannsóknarstjóra og á grundvelli gagna sem sá síðarnefndi aflaði. Var því hafnað að slíkur annmarki hefði verið á rannsókn eða niðurstöðu skattyfirvalda að efni væri til þess að ógilda úrskurð ríkisskattstjóra.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun á inntaki rannsóknarskyldu skattyfirvalda í málum þar sem skattþegnar eru bornir sökum um refsiverðan verknað og samspili þeirrar skyldu við heimildir þeirra sömu stjórnvalda til að beita sönnunarreglum í stað þess að upplýsa málsatvik með rannsókn. Vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að stjórnvald geti aldrei komið sér hjá því að rannsaka mál til hlítar með því að varpa sönnunarbyrði á þann sem málsmeðferð sætir. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til þar sem með honum hafi verið vikið til hliðar þeirri grundvallarreglu að stjórnvöld skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í dómi Landsréttar sé ítrekað vísað til ályktana sem skattrannsóknarstjóri hafi dregið af gögnum og sagt berum orðum að ekki hafi verið sýnt fram á að þær ályktanir hafi verið óforsvaranlegar eða rangar. Ekki sé viðhlítandi að byggja á sönnunarreglum með þeim hætti í stað rannsóknar við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.