Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-84
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Börn
- Barnaverndarlagabrot
- Ákæra
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 20. maí 2022 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í máli nr. 369/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómurinn var birtur 22. apríl 2022. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn brotaþola á tímabilinu 2005 til 2014 frá því að hún var fimm ára þar til hún varð um fimmtán ára. Refsing hans var ákveðin fangelsi í fimm ár auk þess sem niðurstaða héraðsdóms um miskabætur til brotaþola var staðfest.
4. Leyfisbeiðandi tekur fram að með áfrýjun vilji hann ná fram ómerkingu dómsins og að málinu verði vísað aftur til Landsréttar en til vara að hann verði sýknaður af ákæru og til þrautavara að refsing verði lækkuð. Beiðni sinni til stuðnings vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að Landsréttur hafi fært upphaf brota leyfisbeiðanda frá árinu 2003 til ársins 2005 án þess að brotaþoli eða leyfisbeiðandi sjálfur hafi gefið viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti heldur látið við það sitja að hlýða á upptökur af skýrslutökum þeirra fyrir héraðsdómi. Hann hafi því hvorki átt þess kost að spyrja brotaþola út í gerbreyttar forsendur fyrir framburði hennar né að upplýsa dóminn um hvað hann hafi verið að gera og hvar hann hafi haldið til á þeim tíma sem Landsréttur hafi ákveðið upp á eigin spýtur að markaði upphaf brota hans. Leyfisbeiðandi byggir á því að með þessu hafi Landsréttur brotið gegn meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi, sbr. 111. gr. laga nr. 88/2008 sem og gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum d-lið 3. mgr. greinarinnar. Þá hafi nokkrar helstu meginreglur sakamálaréttarfars verið þverbrotnar við rannsókn og dómsmeðferð málsins. Loks hafi ekki verið tekið neitt tillit til refsilækkandi sjónarmiða, meðal annars þess gríðarlega langa tíma sem meðferð málsins tók sem og hreins sakaferils leyfisbeiðanda.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.