Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-64

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Magnús M. Norðdahl lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sifskaparbrot
  • Börn
  • Lögskýring
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 23. mars 2023 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. febrúar 2023 í máli nr. 140/2022: Ákæruvaldið gegn X. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærð fyrir sifskaparbrot með því að hafa svipt barnsföður sinn valdi og umsjá yfir börnum þeirra með því að hafa farið með þau úr landi án leyfis hans og haldið þeim þar. Taldist brot hennar varða við 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda samkvæmt ákæru og um refsingu sem ákveðin var átta mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi og barnsfaðir hennar hefðu verið í skráðri sambúð og haldið sameiginlegt heimili með tveimur börnum sínum þegar hún fór með þau úr landi gegn vilja hans. Leyfisbeiðandi og faðir barnanna hafi því farið sameiginlega með forsjá þeirra, sbr. 1. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 5. mgr. 28. gr. laganna fæli forsjá barns í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Þá fari forsjárforeldri með lögformlegt fyrirsvar barns. Leyfisbeiðandi hafi því ekki átt ríkari rétt en faðir barnanna til að taka ákvarðanir um málefni barnanna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu og mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um, einkum að því er varðar skýringu á 193. gr. almennra hegningarlaga. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til enda sé hann ekki í samræmi við dóm Hæstaréttar 18. nóvember 2021 í máli nr. 27/2021. Vísar leyfisbeiðandi til þess að brot gegn ákvæðum 3. mgr. 28. gr. a barnalaga séu á sviði einkaréttar og baki henni ekki refsiábyrgð þar sem forsjá yfir börnunum hafi verið sameiginleg. Þá sé þörf á úrlausn Hæstaréttar um atriði sem gætu verið virt sakborningi í hag við ákvörðun refsingar.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.