Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-7

A (Þorsteinn Einarsson lögmaður)
gegn
B, C og D (Árni Ármann Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Dánarbússkipti
  • Kaupmáli
  • Séreign
  • Lagaskil
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir.

Með beiðni 2. janúar 2020 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 19. desember 2019 í málinu nr. 784/2019: B, C og D gegn A, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B, C og D leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að fasteign í Suður Karólínu í Bandaríkjunum falli ekki undir skipti á dánarbúi E og að beita beri viðeigandi ákvæðum bandarískra laga um eignarhald fasteignarinnar. Leyfisbeiðandi og E gengu í hjónaand [...] 2009 en fyrir átti E þrjú börn sem eru gagnaðilar í  máli þessu.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu leyfisbeiðanda og vísaði til þess að samkvæmt framlögðum gögnum yrði ekki dregið í efa að það hefði verið vilji hjónanna að það fyrirkomulag sem nefnt er „joint tenancy with the Right of Surviorship“ ætti að gilda um þessa sameiginlegu fasteign þeirra. Samkvæmt matsgerð fælu slíkar reglur í sér að eign væri í sameign á meðan sameigendur væru á lífi en við andlát rynni eignin, ásamt öllum réttindum og skyldum, til hins langlífari sameiganda. Væri ekki litið svo á að eignarhlutur hins látna færðist yfir á þann sem eftir lifði eða að hann erfði eignarhlutinn, heldur að hagsmunum hins látna einfaldlega lyki og þar með yrðu hagsmunir hins eftirlifandi sameiganda meiri af eigninni en áður. Taldi dómurinn að kaupmáli sem leyfisbeiðandi og E gerðu eftir kaup á umræddri fasteign breytti engu um ráðstöfun hennar enda væri með kaupmála fyrst og fremst verið að fastsetja ákveðna skiptingu eigna ef hjón skilja. Taldi dómurinn að um skipti búsins giltu íslensk lög en ákvæði í lögum Suður-Karólínu leiddu til þess að fasteignin rynni ekki til búsins enda væri hún þegar skráð eign leyfisbeiðanda.

Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að ekki yrði fram hjá því litið að í kaupmála leyfisbeiðanda og E sem gerður hefði verið hér á landi eftir kaup þeirra á fasteigninni væri ekkert minnst á að um þá eign hefði átt að gilda séreignarfyrirkomulag. Gæfi það til kynna að þau hefðu sjálf ekki litið svo á eða hefðu eftir atvikum ákveðið að breyta því fyrirkomulagi með gerð kaupmálans. Var því talið að leyfisbeiðandi yrði að bera hallann af sönnunarskorti um hið gagnstæða og því reyndi ekki á það álitaefni hvort til greina kæmi að leggja efni hinnar erlendu réttarreglu til grundvallar við mat á því hvort líta bæri á eignina sem séreign leyfisbeiðanda fremur en hjúskapareign. Taldi rétturinn í ljósi þessa og að engin gögn hefðu verið lögð fram í málinu sem fullnægði skilyrðum XI. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993 um stofnun séreignar yfir umræddri fasteign yrði ekki talið að fullnægt væri því skilyrði 54. gr. laganna að sérstök heimild stæði til annars en að telja þær til hjúskapareignar sem skyldi samkvæmt 1. mgr. 99. gr. hjúskaparlaga falla undir dánarbússkiptin, sbr. 2. mgr. 96. gr. sömu laga.

 Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði hana miklu og að það hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins að fyrir liggi hvort beita skuli íslenskum eða bandarískum lagareglum þegar metið er hvort fyrrnefnd fasteign skuli falla undir opinber skipti dánarbúsins. Þá telur hún kæruefnið hafa fordæmisgildi og að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur og þá sérstaklega sú niðurstaða að líta fram hjá skýrum vilja leyfisbeiðanda og E um að eignarhald á fasteigninni færi eftir reglum í Suður-Karólínu.

Líta verður svo á að úrlausn um þau atriði sem leyfisbeiðandi vísar til myndi hafa fordæmisgildi. Er umsókn um kæruleyfi því tekin til greina.