Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-171
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Sönnun
- Matsgerð
- Málsmeðferð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 4. nóvember 2024 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. október sama ár í máli nr. 663/2023: Ákæruvaldið gegn X. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 9. sama mánaðar. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir nauðgun samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við brotaþola eftir að hún var sofnuð og án hennar samþykkis og notfært sér að þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga. Var refsing ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að það hafi verulega almenna þýðingu að fá úr því skorið hvort fallast beri á varnir sem byggja á kynferðislegri svefnröskun. Í málinu hafi legið fyrir ítarleg læknisfræðileg gögn sem sönnuðu að leyfisbeiðandi væri haldinn slíkri röskun. Landsréttur taldi sannað að leyfisbeiðandi væri haldinn slíkri röskun en hvað sem því liði væri ósannað að svo hefði verið ástatt um hann í því tilviki sem ákæran lyti að. Leyfisbeiðandi telur að með þessari niðurstöðu hafi sönnunarbyrði í málinu verið snúið við og hann þurft að afsanna að hann hefði framið verknaðinn af ásetningi. Þetta sé í ósamræmi við grunnreglur sakamálaréttarfars um að allan vafa beri að skýra ákærða í hag. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að málsmeðferð í Landsrétti hafi verið verulega ábótavant og matsmönnum verið eftirlátið að dæma málið í reynd. Að lokum telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til enda sé skynsamlegur vafi uppi um sök hans.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.