Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-14
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Hlutafélag
- Viðurkenningarkrafa
- Sönnun
- Aðildarskortur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir.
Með beiðni 7. janúar 2020 leita Kristín María Thorarensen og Lindarflöt ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. desember 2019 í máli nr. 921/2018: Kristín María Thorarensen og Lindarflöt ehf. gegn Arion banka hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Arion banki hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að viðurkennd verði skaðabótaskylda gagnaðila gagnvart þeim, hvorum um sig, vegna fjártjóns sem þau hafi orðið fyrir þegar gagnaðili hafi komið í veg fyrir fjárhagslega endurskipulagningu BM Vallár hf. sem leitt hafi til gjaldþrots félagsins. Annar upphaflegra stefnenda málsins, Víglundur Þorsteinsson, lést eftir að dómur féll í héraði og tók ekkja hans, leyfisbeiðandinn Kristín María, við aðild hans að málinu fyrir Landsrétti. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðenda og taldi að þeir hefðu ekki sannað að starfsmenn gagnaðila hefðu sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við meðferð málefna félagsins. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með fyrrgreindum dómi en á þeim grunni að leyfisbeiðendur hefðu ekki sýnt fram á að þeir ættu þau réttindi sem málatilbúnaður þeirra byggðist á, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Leyfisbeiðendur byggja á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Vísa þau til þess að í héraðsdómi hafi verið talið sannað að Víglundur heitinn hafi verið eigandi umræddra hluta í BM Vallá hf. en sú sönnun hafi meðal annars falist í framburði hans þar fyrir dómi. Landsréttur hafi hins vegar endurskoðað sönnunargildi framburðar Víglundar án þess að nokkur skýrslutaka færi fram fyrir réttinum sem hrundið gæti framburði hans. Þá séu ársreikningar leyfisbeiðandans Lindarflatar ehf. og yfirlýsingar endurskoðenda, sem hafi annast skattskil og endurskoðun fyrir Víglund og félög í hans eigu, fullgild sönnun þess að leyfisbeiðendur séu réttir aðilar til sóknar. Loks byggja þeir á því að málið hafi verulegt almennt gildi auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til né efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.