Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-147

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Óla Þór Harðarsyni (Gunnar Egill Egilsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Sönnun
  • Skilorð
  • Miskabætur
  • Einkaréttarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 23. nóvember 2022, sem barst réttinum 28. sama mánaðar, leitar Óli Þór Harðarson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. september 2022 í máli nr. 764/2021: Ákæruvaldið gegn Óla Þór Harðarsyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 4. nóvember sama ár. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, sbr. 1. og 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 19. gr., sbr. 44. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, með því að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglumanna um að víkja frá er þeir voru að handtaka meðákærða í héraði. Var honum gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði, skilorðsbundið til tveggja ára, og greiða lögreglumönnunum miskabætur. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms en ákvað refsingu hans fangelsi í sex mánuði með sömu skilorðsbindingu og ákvörðuð var með héraðsdómi.

4. Leyfisbeiðandi telur annars vegar að niðurstaða Landsréttar sé byggð á röngu mati sönnunargagna. Í því sambandi vísar hann til þess að lýsing hins áfrýjaða dóms á atvikum máls fái ekki stoð í skýrslum lögreglumannanna, annarra vitna eða skýrslu leyfisbeiðanda. Hins vegar telur hann refsingu úr hófi þunga með hliðsjón af dómaframkvæmd vegna brota gegn valdstjórninni og nauðsynlegt að endurskoða þá ákvörðun ásamt niðurstöðu um einkaréttarkröfur málsins.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.