Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-109

Gagnaeyðing ehf. (Erla S. Árnadóttir lögmaður)
gegn
Íslenska gámafélaginu ehf. (Þorsteinn Einarsson lögmaður) og Neytendastofu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Vörumerki
  • Óréttmætir viðskiptahættir
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 20. júlí 2022 leitar Gagnaeyðing ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní 2022 í máli nr. 193/2021: Gagnaeyðing ehf. gegn Íslenska gámafélaginu ehf. og Neytendastofu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilinn Íslenska gámafélagið ehf. leggst gegn beiðninni en gagnaðilinn Neytendastofa gerir það ekki.

3. Ágreiningur aðila lýtur að notkun gagnaðilans Íslenska gámafélagsins ehf. á orðasambandinu „örugg eyðing gagna“ og kröfu leyfisbeiðanda um að úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála 3. janúar 2019 í máli nr. 4/2018 verði felldur úr gildi. Með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála hafði verið felldur úr gildi úrskurður Neytendastofu sem bannaði gagnaðilanum Íslenska gámafélaginu ehf. notkun orðasambandsins.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfu leyfisbeiðanda um að úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála yrði felldur úr gildi. Leyfisbeiðandi byggði á því að hann hefði skapað orðasambandinu vörumerkjavernd með umfangsmikilli og langvarandi notkun þess. Þá byggði leyfisbeiðandi á því að jafnvel þó svo að ekki yrði fallist á að orðmerkið nyti vörumerkjaréttar bryti notkun gagnaðilans Íslenska gámafélagsins ehf. á því í bága við góða viðskiptahætti, sbr. 14. og 15. gr. a laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Landsréttur taldi að leyfisbeiðandi hefði ekki fært sönnur á að orðasambandið „örugg eyðing gagna“ hefði öðlast nægilegt sérkenni til að unnt væri að fallast á að það nyti vörumerkjaréttar á grundvelli notkunar samkvæmt 2. mgr. 3. gr., sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Af því leiddi jafnframt að gagnaðilinn Íslenska Gámafélagið ehf. hefði ekki getað talist hafa gerst brotlegur gegn fyrri málslið 15. gr. a, sbr. 14. gr. laga nr. 57/2005. Loks komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að notkunin hefði ekki verið slík að hún væri til þess fallin að villst yrði á starfsemi leyfisbeiðanda og gagnaðilans Íslenska gámafélagsins ehf. og þeirri þjónustu sem félögin byðu upp á og því ekki talið að gagnaðilinn Íslenska gámafélagið ehf. hefði gerst brotlegur við síðari málslið 15. gr. a, sbr. 14. gr. laga nr. 57/2005.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og vísar til þess að takmörkuð dómaframkvæmd sé um 15. gr. a laga nr. 57/2005, einkum um síðari málslið ákvæðisins. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína enda séu vörumerki meðal mikilvægustu eigna fyrirtækis. Loks telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar vera bersýnilega rangan að efni til. Vísar hann einkum til þess að niðurstaða um gildissvið 15. gr. a hafi verið röng, niðurstaða um mat á sönnunargildi könnunar sem lögð var fram hafi ekki verið í samræmi við dómaframkvæmd og að skort hafi umfjöllun um ásetning til að tileinka sér viðskiptavild. Leyfisbeiðandi gerir jafnframt athugasemd við ákvörðun málskostnaðar.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.