Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-181

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Birni Snævari Björnssyni (Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Nauðgun
  • Kynferðisleg áreitni
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 1. júlí 2021 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. júní sama ár í málinu nr. 290/2020: Ákæruvaldið gegn Birni Snævari Björnssyni á grundvelli d-liðar 1. mgr., sbr. 3. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa strokið yfir rass og kynfæri brotaþola innan klæða og utan. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms, með vísan til forsendna hans, um að sýkna ákærða af broti gegn 1. mgr. 194. gr. sömu laga með því að hafa stungið fingri í leggöng brotaþola. Refsing ákærða var ákveðin fangelsi í fimm mánuði en fullnustu hennar frestað og skyldi falla niður að liðnum þremur árum héldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá var honum gert að greiða brotaþola miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi telur að ákærði hafi verið ranglega sýknaður af broti gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Tilgangur áfrýjunar sé að fá dóm Landsréttar ómerktan, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Hann byggir á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni, sbr. 3. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði og brotaþoli hafi gefið skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti en rétturinn hafi hins vegar ekki lagt sjálfstætt mat á framburð þeirra, hvorki fyrir héraðsdómi né Landsrétti. Þá hafi héraðsdómur ranglega staðhæft að ákærði hafi verið sjálfum sér samkvæmur og trúverðugur, enda þótt framburður hans hafi tekið augljósum breytingum um mikilvæg atriði sem dragi verulega úr trúverðugleika framburðar hans. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að niðurstöður DNA-rannsóknar styðji framburð brotaþola fremur en ákærða. Heildstætt mat á sönnunargögnum og framburði annarra vitna hafi því verið alls ófullnægjandi á báðum dómstigum. Í dómi Landsréttar hafi heldur ekki verið fjallað um þýðingu vottorðs sálfræðings við mat á sönnunargildi framburðar brotaþola. Sönnunarmatið í málinu hafi verið í brýnni andstöðu við fyrri dóma Hæstaréttar.

5. Eins og hér hefur verið rakið gáfu ákærði og brotaþoli skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti, auk þess sem upptökur í hljóði og mynd af framburði þeirra og tilgreindra vitna fyrir héraðsdómi voru spilaðar. Á samningu hins áfrýjaða dóms eru þeir annmarkar að við endurskoðun á sönnunarmati er látið nægja að vísa til forsendna héraðsdóms en ekki fjallað sérstaklega um áhrif framburðar ákærða og vitna fyrir Landsrétti á sönnunarmatið eða vísað til vottorðs sálfræðings sem lagt var fram fyrir réttinum. Þessir annmarkar eru þó ekki slíkir að dómurinn verði talinn bersýnilega rangur að efni eða formi, sbr. 3. málslið 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.