Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-89
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vátryggingarsamningur
- Stórkostlegt gáleysi
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 28. júní 2024 leitar Vátryggingafélag Íslands hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í máli nr. 5/2023: Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A ehf. og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu gagnaðila um viðurkenningu á greiðsluskyldu leyfisbeiðanda úr húftryggingu fyrir jarðýtu vegna tjóns sem varð á henni í […] 2020. Deila aðilar meðal annars um hvort gagnaðili geti talist vera vátryggður í skilningi vátryggingarskilmála leyfisbeiðanda og 13. töluliðar 2. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga eða meðvátryggður í skilningi 2. mgr. 2. gr. skilmála tryggingarinnar, hvort um samsömun sé að ræða á milli stjórnanda jarðýtunnar og eiganda hennar, hvernig vátryggingaratburðurinn hafi orðið, hvort um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða eða brot á varúðarreglum og hvort skilyrði séu til að skerða bætur í heild eða að hluta.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um greiðsluskyldu leyfisbeiðanda vegna 1/3 hluta tjóns sem varð á jarðýtunni. Með vísan til forsendna héraðsdóms staðfesti Landsréttur niðurstöðu hans um aðild gagnaðila, um samsömun milli stjórnanda jarðýtunnar og eiganda hennar, um brot stjórnandans gegn varúðarreglum og stórkostlegt gáleysi hans, sem og um orsakatengsl milli sakar stjórnandans og vátryggingaratburðarins. Landsréttur taldi með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 að skerða bæri bætur úr húftryggingunni um tvo þriðju hluta vegna sakar stjórnanda jarðýtunnar. Landsréttur taldi ekkert fram komið í málinu sem benti til þess að vátryggingaratburðinn mætti rekja til annars en áfengisneyslu stjórnandans sem vegna hennar hefði verið óhæfur til að stjórna jarðýtunni.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun fjölda ákvæða í lögum nr. 30/2004 í tengslum við skaðatryggingar. Þá byggir hann á því sérstaklega að mikilvægt sé að fá túlkun Hæstaréttar á orðunum „atvikum að öðru leyti“ í lokamálslið 26. gr. laga nr. 30/2004 og „atvika að öðru leyti“ í 2. mgr. 27. gr. laganna og innbyrðis vægi þeirra atriða sem hafa áhrif á mat á hlutfalli skerðingar bóta í ákvæðunum tveimur. Auk þess telur leyfisbeiðandi að ekki liggi fyrir dómafordæmi Hæstaréttar um áhrif þess að brotið sé gegn varúðarreglu í skaðatryggingu með háttsemi sem telst til stórkostlegs gáleysis. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína sem eins af stærstu vátryggingafélögum landsins. Að endingu heldur hann því fram að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til þar sem enginn rökstuðningur sé í dóminum um hlutfall skerðingar bóta.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.