Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-68
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótakrafa
- Viðurkenningarkrafa
- Skaðabótaábyrgð
- Endurskoðandi
- Skipting félags
- Fasteign
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Ingveldur Einarsdóttir.
2. Með beiðni 24. maí 2024 leitar Sjöstjarnan ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. apríl sama ár í máli nr. 239/2023: Sjöstjarnan ehf. gegn KPMG ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur málsins varðar kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur úr hendi gagnaðila vegna tjóns sem hann telur gagnaðila hafa valdið sér í tengslum við skiptingu fasteignarinnar að Skútuvogi 3 úr hlutafélaginu Eggerti Kristjánssyni. Leyfisbeiðandi heldur því fram að vinnubrögð gagnaðila við skiptingu fasteignarinnar og gerð skiptingaráætlunar og annarra tengdra gagna hafi verið saknæm og valdið sér tjóni. Leyfisbeiðandi vísar einkum til dóms Hæstaréttar 29. október 2020 í máli nr. 19/2020 þar sem meðal annars var fallist á riftunarkröfu þrotabús EK1923 ehf. vegna ráðstöfunarinnar.
4. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur var með vísan til forsendna með dómi Landsréttar kom fram að ekkert benti til þess að vinnubrögð gagnaðila í tengslum við ráðgjöf og skjöl vegna skiptingar félagsins hefðu verið í ósamræmi við þær reglur sem giltu, skyldur endurskoðenda eða tíðkanlega starfshætti. Þannig hefði leyfisbeiðandi ekki fært haldbær rök fyrir því að ágallar hefðu verið á skiptingaráætlun, skiptingarefnahagsreikningi eða öðrum gögnum sem gagnaðili hefði unnið að. Yrði því lagt til grundvallar að umrædd gögn hefðu tekið mið af þeim upplýsingum sem legið hefðu fyrir, sem og vilja hluthafa fyrirtækjanna um hvernig skiptingunni skyldi hagað. Þá yrði ekki ráðið af dómi Hæstaréttar í máli nr. 19/2020 að skipting Eggerts Kristjánssonar hf. hefði verið andstæð lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög og nr. 2/1995 um hlutafélög. Ekki var heldur talið sýnt fram á að nánar tilgreindur endurskoðandi eða aðrir starfsmenn gagnaðila hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við skiptingu Eggerts Kristjánssonar hf. og ráðstöfun fyrrgreindrar fasteignar en slíkt væri grunnskilyrði bótaábyrgðar gagnaðila. Sérfróðir meðdómendur sátu í dómi á báðum dómstigum.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi um eftirfarandi atriði: Í fyrsta lagi hvort hægt sé að komast hjá kröfum sem lög um sölu fasteigna gera til faglegrar milligöngu með því að færa fasteign úr félagi með skiptingu eftir lögum um hlutafélög. Í öðru lagi hvort lög um sölu fasteigna geti gilt um eignatilfærslur af þessu tagi. Í þriðja lagi hvort sérfræðingum sem hafa faglega milligöngu um eignatilfærslur úr fyrirtæki sem stendur höllum fæti beri skylda til að upplýsa um möguleika á að ráðstöfunin muni teljast riftanleg síðar meir. Í fjórða lagi hvort fyrningarfrestur kröfu á hendur ráðgjafarfyrirtæki geti byrjað að líða við endanlega niðurstöðu dómstóla í máli þegar fyrirtækið er ekki aðili að málinu en ráðgjöf þess er til umfjöllunar. Jafnframt byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni hans enda hafi hann orðið fyrir miklu tjóni vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 19/2020. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar leyfisbeiðandi til þess að í dómi héraðsdóms virðist því vera haldið fram að aðkomu gagnaðila hafi lokið 30. mars 2014 og starfsmaður gagnaðila hafi eingöngu tekið mið af upplýsingum sem lágu fyrir á þeim tíma. Leyfisbeiðandi vísar hins vegar til þess að rétt sé að gagnaðili sá um hluthafafundi í skiptingarfélögunum í september 2014 auk allrar skjalagerðar vegna þeirra.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.