Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-296
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fiskveiðistjórn
- Viðurkenningarkrafa
- Lögskýring
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Með beiðni 30. október 2019 leitar Hróðgeir hvíti ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. júní sama árs í málinu nr. 802/2018: Hróðgeir hvíti ehf. gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.
Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu gagnaðila vegna fjártjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir á árinu 2017 í framhaldi af setningu reglugerðar nr. 374/2017 um breytingu á reglugerð nr. 164/2017 um hrognkelsaveiðar 2017. Leyfisbeiðandi hafði leyfi til grásleppuveiða fyrir tvö fiskiskip sín árið 2017 og samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 164/2017, voru leyfin gefin út til „20 samfelldra daga í upphafi, þar til ákvörðun um heildarfjölda daga yrði tekin.“ Veiðitímabilið var tilgreint frá 20. mars til 2. júní 2017. Með 1. gr. reglugerðar nr. 290/2017, sem öðlaðist gildi 4. apríl 2017, var veiðidögum skipa fjölgað úr 20 í 36 daga. Leyfisbeiðandi tók grásleppunet annars skips síns úr sjó 23. apríl 2017 og hins skipsins 25. sama mánaðar þar sem hann var búinn með leyfilegan veiðidagafjölda sinn. Þá sótti hann um leyfi til strandveiða og fékk leyfi fyrir annan bátinn 27. apríl 2017. Í leyfinu var tiltekið að á gildistíma þess myndu öll önnur veiðileyfi, sem bundin væru við bátinn, falla úr gildi í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Eftir það tímamark var reglugerð nr. 164/2017 aftur breytt og nú með reglugerð nr. 374/2017 sem fól í sér fjölgun veiðidaga í 46 auk þess sem veiðitímabilið var framlengt til 14. júní 2017. Ráðherra tók umrædda ákvörðun um fjölgun veiðidaga 29. apríl 2017 sem tók gildi 3. maí sama ár. Fiskveiðistofa tilkynnti 30. apríl 2017 að þeir sem vildu hefja grásleppuveiðar á ný vegna umræddrar ákvörðunar ráðuneytisins um fjölgun veiðidaga en hefðu sótt um og fengið leyfi til strandveiða gætu frestað gildistöku strandveiðileyfanna með sérstakri tilkynningu til stofnunarinnar.
Leyfisbeiðandi kveður tjón sitt felast í því að hann hafi ekki getað nýtt sér þá fjölgun veiðidaga sem leiddi af reglugerð nr. 374/2017 þar sem hann hafi þá verið hættur grásleppuveiðum og fjölgun veiðidaga verið framkvæmd með þeim hætti að hún nýttist ekki skipum hans. Það byggir hann á því að það hversu seint reglugerðin var gefin út hafi í reynd gert honum ómögulegt að hefja veiðar á ný. Hann hafi þá verið búinn að taka grásleppunet úr sjó og undirbúa skip sín fyrir strandveiðar með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði. Jafnframt hafi hásetar hans þá verið horfnir til annarra starfa. Einnig hafi hann á þeim tíma verið búinn að fá útgefið leyfi til strandveiða með þeim afleiðingum að honum hafi verið óheimilt samkvæmt lögum að hefja grásleppuveiðar á ný á því skipi, sbr. 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006. Með þessu telur leyfisbeiðandi að honum hafi verið mismunað með ólögmætum hætti þar sem ýmsir aðrir handhafar grásleppuveiðileyfa höfðu ekki lokið veiðum þegar reglugerðin tók gildi og því getað haldið þeim áfram öndvert við leyfisbeiðanda. Með þessu hafi gagnaðili brotið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar og 10. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um tjón sitt vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að grásleppuveiðar séu umtalsvert arðbærari en strandveiðar og hafi hann því fyrirsjáanlega orðið fyrir tjóni sem nemi mismun á aflaverðmæti þessara veiða að frádregnum kostnaði.
Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi. Vísað rétturinn til þessa að leyfisbeiðanda hafi ótvírætt verið heimilt að hefja grásleppuveiðar á ný á grundvelli bráðabirgðaákvæðis sem bætt var við reglugerð nr. 164/2017 með gildistöku reglugerðar nr. 374/2017. Var talið að af orðalagi ákvæðisins mætti skýrlega ráða að gerð væri undanþága um samfelldar veiðar en samkvæmt því hefði leyfisbeiðandi getað tekið ákvörðun um að hefja aftur grásleppuveiðar. Þá var talið að þar sem strandveiðileyfi leyfisbeiðanda hefði ekki tekið gildi þegar Fiskistofa gaf út fyrrgreinda tilkynningu hefði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006 ekki staðið því í vegi að leyfisbeiðandi gæti óskað eftir fresti á gildistöku strandveiðileyfisins á meðan hann stundaði áfram grásleppuveiðar á grundvelli breyttrar heimildar þar að lútandi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og telur að hann hafi ekki lagt rétt mat á nokkur lykilatriði í málinu. Sú röksemd að leyfisbeiðandi hafi vitað eða hafi mátt vita þegar hann tók net sín úr sjó að ákvörðun um frekari fjölgun veiðidaga kynni að verða tekin síðar sé haldlaus og röng. Þá sé túlkun Landsréttar á ákvæði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006 ekki rétt og hafi handhöfum grásleppuveiðileyfa verið mismunað með framangreindum hætti. Enn fremur telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem 80 leyfishafar hafi verið í sömu stöðu og hann og varði málið það álitaefni hvernig stjórnvöld beiti valdheimildum sínum. Loks telur leyfisbeiðandi málið varða sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu geti haft fordæmisgildi um framangreind atriði. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.