Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-126
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Opinber innkaup
- Verksamningur
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 16. nóvember 2023 leitar Sorpa bs. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. október sama ár í máli nr. 40/2022: Sorpa bs. gegn Íslenskum aðalverktökum hf. og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort leyfisbeiðandi hafi brotið gegn 15. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og með því valdið gagnaðila bótaskyldu tjóni.
4. Með dómi Landsréttar var frávísunarkröfu leyfisbeiðanda í gagnsök vegna ágalla á gagnáfrýjunarstefnu hafnað og leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila skaðabætur. Talið var að skilmálarnir sem giltu um samningskaupin hefðu verið misvísandi og til þess fallnir að valda misskilningi hjá þeim sem tóku þátt í ferlinu um að hvaða marki þátttakendum væri heimilt að víkja frá skilmálum samningskaupanna með frávikum eða undanþágum. Hefði Ístak hf. talið sér það heimilt en gagnaðili talið sér það óheimilt. Þótti ljóst að óskýrleiki í tilboðsskilmálum samningskaupanna hefði leitt til þess að tilboð sem bárust frá Ístaki hf. og gagnaðila hefðu ekki verið samanburðarhæf þar sem þau byggðu á mismunandi forsendum. Var leyfisbeiðandi talinn hafa gerst brotlegur við 1. mgr. 15. gr. laga nr. 120/2016 hvað varðaði jafnræði bjóðenda og gagnsæi við innkaup og valdið gagnaðila bótaskyldu tjóni.
5. Leyfisbeiðandi vísar til þess að þótt Landsréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að tilboðið sem leyfisbeiðandi tók hafi verið gilt hafi rétturinn samt sem áður talið að tilboðið hafi verið haldið frávikum. Af því megi álykta að frávikstilboð í samningskaupunum hafi verið heimil. Þrátt fyrir þetta telji Landsréttur að áfrýjanda hafi borið að leggja mat á virði frávikanna og greina hvort þau hefðu breytt röð tilboðanna. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi um hvort nauðsyn sé á samanburði tilboða þegar staðfest hefur verið að samþykkt tilboð hafi verið gilt. Að auki telur leyfisbeiðandi niðurstöðu Landsréttar um þetta bersýnilega ranga. Þá byggir hann á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem vísa hefði átt gagnáfrýjun frá Landsrétti vegna ágalla á gagnáfrýjunarstefnu. Þá sé farið út fyrir málatilbúnað aðila í dóminum og hann bersýnilega efnislega rangur því niðurstaða Landsréttar sé órökstudd og byggi á óstaðfestu skjali sem ekki hafi verið lagt fram fyrir héraðsdómi.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómurinn sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.