Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-140
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Samningur
- Fjármögnunarleiga
- Ógilding samnings
- Nauðungarsala
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 26. apríl 2019 leitar Reynir Georgsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. mars sama ár í málinu nr. 593/2018: Reynir Georgsson gegn Lykli fjármögnun hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lykill fjármögnun hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda verði gert að greiða sér 3.311.678 krónur auk dráttarvaxta á grundvelli fjármögnunarleigusamnings um bifreið frá árinu 2006 sem gagnaðili rifti 2014. Að kröfu gagnaðila samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu var bifreiðin seld á uppboði á árinu 2015 og hefur hann dregið söluverð hennar, 877.791 krónu, frá kröfu sinni. Ágreiningur aðila snýr einkum að því hvort tiltekin ákvæði samningsins um uppgjör vegna samningsslita, meðal annars um verðmat á bifreiðinni, séu í andstöðu við 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991. Hefur leyfisbeiðandi reist kröfu sína um sýknu af kröfu gagnaðila á því að víkja eigi þessum samningsákvæðum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Héraðsdómur tók kröfu gagnaðila til greina og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með áðurnefndum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins geti haft verulegt fordæmisgildi um hvort kröfuhafa samkvæmt fjármögnunarleigusamningi sé heimilt að selja muni, sem samningurinn hafi verið gerður um, á uppboði samkvæmt 8. gr. laga nr. 90/1991 og virða þannig að vettugi skyldu sína eftir 1. mgr. 57. gr. laganna til að sýna fram á markaðsverð eignarinnar. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína þar sem einnig sé ágreiningur milli aðila um uppgjör tveggja annarra hliðstæðra fjármögnunarleigusamninga. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.