Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-159

Gísli Viðar Eggertsson og Kristín Sveinsdóttir (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Böðvari Þórissyni og Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Söluyfirlit
  • Skoðunarskylda
  • Upplýsingaskylda
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Sigurður Tómas Magnússon og Ása Ólafsdóttir.

2. Með beiðni 4. desember 2024 leita Gísli Viðar Eggertsson og Kristín Sveinsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. nóvember sama ár í máli nr. 444/2023: Gísli Viðar Eggertsson og Kristín Sveinsdóttir gegn Böðvari Þórissyni og Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fasteign sem gagnaðilar seldu leyfisbeiðendum hafi verið gölluð þannig að leyfisbeiðendur eigi rétt á skaðabótum eða afslætti úr hendi gagnaðila.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda staðfestur með vísan til forsendna hans að viðbættum frekari röksemdum. Landsréttur rakti að í kauptilboði 23. október 2023 hefðu leyfisbeiðendur gert fyrirvara um ástandsskoðun og heimild til að rifta tilboði innan tveggja virkra daga frá skoðun. Að beiðni leyfisbeiðenda hefði byggingafræðingur skoðað fasteignina. Að virtum þeim upplýsingum sem fram komu í skýrslu hans lagði Landsréttur til grundvallar að leyfisbeiðendur hefðu gert sér grein fyrir því að ástand þaks fasteignarinnar væri ábótavant og að það hefði eingöngu verið endurnýjað að hluta. Þrátt fyrir þessa vitneskju hefðu leyfisbeiðendur ekki nýtt samningsbundna heimild sína til að falla frá kaupum á fasteigninni. Að því gættu og með hliðsjón af 2. mgr. 27. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup taldi Landsréttur að leyfisbeiðendur gætu ekki borið fyrir sig að fasteignin hefði verið gölluð þar sem fram hefði komið fram í söluyfirliti að þak hefði verið endurnýjað fyrir 15 til 20 árum.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að dómur Landréttar sé bersýnilega rangur og ekki í samræmi við fyrirmæli laga nr. 40/2002 og dómafordæmi. Upplýsingar í söluyfirliti fasteignarinnar hafi verið rangar og leyfisbeiðendur ekki getað áttað sig á því við skoðun að þak hefði verið ónýtt í heild sinni. Niðurstaða Landsréttar fari gegn 3. mgr. 29. gr. laganna sem feli í sér að hafi seljandi brotið gegn upplýsingaskyldu sinni geti engin háttsemi kaupanda útrýmt þeirri saknæmu háttsemi seljanda. Þá sé niðurstaða Landsréttar bersýnilega röng um að leyfisbeiðendur beri alfarið ábyrgð á göllum á þaki þar sem þau hafi fengið vísbendingar við skoðun um að ástand þess væri ábótavant en hefðu samt ekki hætt við kaupin. Jafnframt byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda nauðsynlegt að Hæstiréttur fjalli um hvort seljandi sem sýnt hafi af sér saknæma háttsemi geti losnað undan réttaráhrifum hennar. Að endingu byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins hafi sérstakt gildi fyrir þau. Þau hafi þurft að kosta endurnýjun á þakinu að öllu leyti og útvega sér annað húsnæði meðan á framkvæmdum stóð. Tjón þeirra sé meira en dómkrafa málsins sem byggi á mati dómkvadds matsmanns.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að fullnægt sé þeim skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.