Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-90
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Landamerki
- Samaðild
- Kröfugerð
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 6. júlí 2023 leitar Guðrún Lilja Arnórsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. júní 2023 í máli nr. 25/2022: Þráinn Nóason gegn Guðrúnu Lilju Arnórsdóttur og Kjartani Nóasyni. Gagnaðilinn Þráinn Nóason leggst gegn beiðninni en gagnaðilinn Kjartan Nóason lætur málið ekki til sín taka.
3. Í málinu deila aðilar um nánar tilgreind mörk jarðarinnar Eiðis gagnvart jörðunum Vindási og Setbergi. Gagnaðilar eiga jörðina Setberg sameiginlega og gagnaðilinn Þráinn á einn jörðina Vindás.
4. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda um nánar tiltekin merki jarðanna. Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist sönnun þess að merki jarðanna væru með þeim hætti sem lýst væri í aðal- eða varakröfu hennar og var gagnaðilinn Þráinn sýknaður. Málinu var einnig áfrýjað hvað varðaði gagnaðilann Kjartan án þess að gerð væri krafa um að honum yrði gert að þola dóm. Hann lét málið ekki til sín taka fyrir Landsrétti. Dómsorð Landsréttar tók ekki til hans sem sameiganda jarðarinnar Setbergs.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og fordæmisgildi um túlkun ákvæða laga nr. 91/1991 um samaðild. Leyfisbeiðandi vísar til þess að gagnaðilinn Þráinn, sem var áfrýjandi fyrir Landsrétti, hafi hvorki í áfrýjunarstefnu né greinargerð sinni til Landsréttar krafist þess að sameiganda sínum Kjartani yrði gert að þola dóm í málinu. Af dómaframkvæmd megi ráða að það sé forsenda þess að hægt sé að höfða mál þannig að skilyrðum samaðildar til sóknar samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 sé gætt að þess sé krafist að þeim sem á aðild til sóknar en vilji ekki vera aðili að henni sé allt að einu gert að þola dóm. Málið hafi því fordæmisgildi í þessu tilliti. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að formi og efni til.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því hafi fordæmisgildi um skilyrði samaðildar og tilhögun kröfugerðar samkvæmt lögum nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.