Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-116

Esja Attractions ehf. (Gunnar Jónsson lögmaður)
gegn
This is City Attractions B.V. (Baldvin Björn Haraldsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samningur
  • Túlkun samnings
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 21. apríl 2021 leitar Esja Attractions ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. mars 2021 í málinu nr. 107/2020: This is City Attractions B.V. gegn Esja Attractions ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili höfðaði mál þetta og krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að hann ætti rétt til greiðslu svonefndrar hlutdeildarþóknunar úr hendi leyfisbeiðanda samkvæmt ákvæðum samnings þeirra í milli og að leyfisbeiðandi yrði dæmdur til að greiða honum 300.000 evrur með dráttarvöxtum. Til vara að viðurkennd yrði skaðabótaskylda leyfisbeiðanda vegna missis hagnaðar gagnaðila. Umræddur samningur tók gildi 15. febrúar 2017 og var um þjónustu gagnaðila við uppsetningu á flugupplifun á vegum leyfisbeiðanda. Samkvæmt orðalagi samningsins skyldi hann vera tímabundinn til níu mánaða og falla þá sjálfkrafa úr gildi ef ekki tækist að ljúka „heildarfjármögnun“ en tækist það skyldi samningurinn framlengjast um tvö ár. Þóknun til handa gagnaðila fyrir þjónustuna var ákveðin þannig að annars vegar skyldi hann fá greidda mánaðarlega þóknun á gildistíma samningsins og hins vegar fyrrnefnda hlutdeildarþóknun í 15 ár frá opnunardegi flugkvikmyndahússins sem skyldi vera 3,5% af tekjum vegna seldra miða í flugupplifun. Ágreiningur aðila lýtur í meginatriðum að því hvort umræddur samningur hafi framlengst umfram fyrstu níu mánuðina og hvort ákvæði samningsins um hlutdeildarþóknun gildi óháð því hvort samningurinn hefði framlengst.

4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila á þeim grunni að „heildarfjármögnun“ hefði ekki verið lokið á gildistíma samningsins og hefði hann því runnið sitt skeið á enda. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á aðalkröfur gagnaðila. Vísaði rétturinn til þess að í umræddum samningi væri hugtakið „heildarfjármögnun“ skýrt og miðað við að því væri náð þegar „unnt [yrði] að byggja kvikmyndahús og hefja rekstur þess.“ Leyfisbeiðandi hefði tryggt sér umtalsvert eigið fé í september 2017 við kaup kanadískrar samsteypu á meirihluta í félaginu sem hafi tryggt honum aðgang að fjármagni sem ætla yrði að hefði getað nægt til að mæta fyrirliggjandi áætlun um heildarfjármögnun verkefnisins. Sú ráðstöfun hefði ein og sér veitt líkur fyrir því að með þeirri ráðstöfun hefði fjármögnun flugupplifunarinnar svo gott sem verið tryggð. Þá hefði leyfisbeiðandi greitt gagnaðila þóknun fyrir þrjá mánuði umfram níu mánaða samningstímann og hefði greiðslan hækkað til samræmis við framlengingarákvæði samningsins. Loks yrði ekki fram hjá því litið að leyfisbeiðandi hefði ritað gagnaðila tölvupóst í lok apríl 2018 þar sem gildi umrædds samnings hefði ekki verið dregið í efa og virtist því sjálfur hafa litið svo á að samningurinn væri áfram í gildi eftir að níu mánaða upphaflegum gildistíma hans lauk.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu um túlkun á ákvæðum samninga. Að mati leyfisbeiðanda sé í dómi Landsréttar farið gegn viðurkenndum túlkunarreglum um að samningsákvæði beri að skýra eftir efni sínu þegar þau eru skýr. Umræddur samningur hafi skýrlega kveðið á um að án heildarfjármögnunar innan tilgreindra tímamarka hafi samningurinn átt að renna sitt skeið á enda. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til og í andstöðu við fordæmi Hæstaréttar og Landsréttar. Þá hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant. Í þeim efnum vísar hann einkum til þess að gagnaðili hafi lagt fram gögn fyrir Landsrétti sem hefði mátt afla áður en gagnaöflun lauk í héraði þvert gegn útilokunarreglu einkamálaréttarfars. Að sama skapi hafi gagnaðili lagt fram sérfræðiskýrslu þar sem leitast hafi verið við að sanna atriði sem með réttu hefði borið að gera með því að óska eftir mati dómkvadds matsmanns. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði verulega fjárhagslega hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.