Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-70
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Manndráp
- Tilraun
- Miskabætur
- Refsiákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 27. mars 2025 leitar Candido Alberto Ferral Abreu leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. febrúar sama ár í máli nr. 75/2024: Ákæruvaldið gegn Candido Alberto Ferral Abreu. Dómurinn var birtur leyfisbeiðanda 10. mars sama ár. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að brotaþola með hnífi á bifreiðastæði fyrir utan fjölbýlishús í Reykjavík og stungið hann tvívegis í brjósthol.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Refsing hans var ákveðin fangelsi í fjögur ár og honum gert að greiða brotaþola miskabætur. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda en honum gert að sæta fangelsi í fimm ár og greiða brotaþola miskabætur. Landsréttur taldi sannað að leyfisbeiðandi hefði gerst sekur um þá háttsemi sem greindi í ákæru. Þá taldi rétturinn að honum hefði hlotið að vera ljós sú hætta á líftjóni sem stafaði af atlögu hans og yrði að telja að hending ein hefði ráðið að ekki hlaust bani af henni. Þótti háttsemin því réttilega heimfærð í ákæru til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun lúti að atriði sem mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um. Byggir hann á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi hafi verið stórlega ábótavant þar sem hún hafi verið í andstöðu við skýrt ákvæði 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008. Fyrir liggi að skýrsla hafi verið tekin af matsmanni í aðalmeðferðinni sjálfri og skýrslan sú síðasta sem hafi verið tekin fyrir dómi. Muni úrlausn Hæstaréttar hafa almennt gildi um túlkun og framkvæmd 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé dómur Landsréttar af sömu sökum bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.