Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-58
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Brostnar forsendur
- Lífeyrisréttindi
- Lífeyrisskuldbinding
- Breyting samnings
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 14. apríl 2023 leitar Lífeyrissjóður bankamanna leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. mars 2023 í máli nr. 753/2021: Lífeyrissjóður bankamanna gegn Landsbankanum hf., Seðlabanka Íslands, Valitor hf., Reiknistofu bankanna hf., Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og íslenska ríkinu. Gagnaðilarnir Landsbankinn hf., Seðlabanki Íslands, Valitor hf. og Reiknistofa bankanna hf. leggjast gegn beiðninni. Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja leggjast ekki gegn beiðninni en íslenska ríkið leggur það í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við henni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að samkomulagi frá 1997 sem ber heitið „Samkomulag um uppgjör á skuldbindingum aðildarfyrirtækja.“ Aðalkrafa og fyrsta og önnur varakrafa leyfisbeiðanda lúta að því að samkomulaginu verði breytt á þann veg að við það bætist ákvæði þar sem gagnaðilum verði gert að greiða leyfisbeiðanda nánar tilgreindar fjárhæðir í viðbótargreiðslur vegna samkomulagsins. Auk þess beri gagnaðilar frá 1. janúar 2015 ábyrgð á skuldbindingum Hlutfallsdeildar Lífeyrissjóðs bankamanna umfram eignir á hverjum tíma í hlutfalli við skuldbindingar vegna sjóðfélaga þeirra í Hlutfallsdeild. Þriðja varakrafa leyfisbeiðanda lýtur að því að viðurkennt verði að íslenska ríkið beri ábyrgð gagnvart leyfisbeiðanda á lífeyrisskuldbindingum þeirra sjóðfélaga í Hlutfallsdeild sem voru starfsmenn Landsbanka Íslands fyrir 1. janúar 1998.
4. Með fyrrgreindum dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Dómurinn taldi að staða aðila við gerð samkomulagsins frá 1997, efni þess, atvik við samningsgerðina og síðari atvik réttlættu ekki að samkomulaginu yrði breytt með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og að tilvísun leyfisbeiðanda til 65. gr., 72. gr. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 breyttu engu þar um. Var einkum vísað til þess að ráðið yrði af lögskýringargögnum með 36. gr. laga nr. 7/1936 að ákvæðið fæli í sér undantekningarreglu gagnvart meginreglum íslensks fjármunaréttar um samningsfrelsi og skyldu manna til að efna gerða samninga. Einnig væri til þess að líta að ákvæðinu yrði ekki beitt með þeim hætti að aðilar yrðu með dómi skyldaðir til samningsgerðar, enda stríddi það gegn meginreglunni um samningsfrelsi og venjulegum viðskiptaháttum.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi varðandi inntak og umfang heimilda 36. gr. laga nr. 7/1936 og reglunnar um brostnar forsendur til að víkja til hliðar eða breyta efni samninga. Leyfisbeiðandi telur einsýnt að málið varði verulega fjárhagslega hagsmuni hans. Að lokum telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan og litast af röngu mati héraðsdóms á tryggingafræðilegri stöðu leyfisbeiðanda. Það geti ekki staðist að leyfisbeiðandi og þar af leiðandi sjóðfélagar hans beri einir hallann af því að fjárhagslegar forsendur flókins samkomulags um lífeyrisréttindi standist ekki.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.