Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-145
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Frestur
- Samkeppni
- Stjórnvaldsákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 15. október 2025 leitar Samkeppniseftirlitið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 18. september sama ár í máli nr. 611/2024: Síminn hf. gegn Samkeppniseftirlitinu og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að ákvörðun leyfisbeiðanda í máli gagnaðila frá árinu 2015 sem gerð var í þeim tilgangi að ljúka málum sem þá voru til rannsóknar hjá embættinu. Í henni var mælt fyrir um rekstrarskilyrði sem gagnaðili skyldi lúta á fjarskiptamarkaði. Í ákvörðuninni var jafnframt kveðið á um að leyfisbeiðandi skyldi taka rökstudda afstöðu til þess hvort nauðsynlegt væri að viðhalda skilyrðum hennar, kæmi erindi þess efnis frá gagnaðila. Bæri leyfisbeiðanda að taka afstöðu til slíks erindis innan 115 virkra daga frá því að það barst. Væri það ekki gert teldist erindið samþykkt og skilyrði ákvörðunarinnar úr gildi fallin. Í málinu deila aðilar meðal annars um hvenær umræddur frestur hafi byrjað að líða, einkum þar sem í 2. mgr. 26. gr. ákvörðunarinnar sagði að hann byrjaði að líða þegar leyfisbeiðandi hefði staðfest að honum hefði borist rökstutt erindi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. hennar.
4. Landsréttur taldi að túlka yrði ákvæði ákvörðunarinnar um frestinn þannig að hann byrjaði að líða þegar beiðni bærist og leyfisbeiðandi staðfesti að erindi væri rökstutt þó að sú staðfesting kæmi síðar. Að þeirri niðurstöðu fenginni taldi Landsréttur að fresturinn hefði verið liðinn þegar svar leyfisbeiðanda barst gagnaðila og öll skilyrði ákvörðunarinnar væru þannig úr gildi fallin. Þá staðfesti Landsréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um ógildingu ákvörðunar frá 2023 sem tengdist ákvörðuninni frá 2015.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Hvorugur aðila málsins hafi byggt á þeim skýringarkosti sem Landsréttur lagði til grundvallar og sá kostur fái hvorki stoð í 17. gr. d. samkeppnislaga nr. 44/2005 né reglum nr. 1390/2020 um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum, en reglurnar hafi þess utan ekki verið settar þegar sáttin var undirrituð 23. janúar 2015. Landsréttur hafi gripið fram fyrir hendur málsaðila og ekki virt forræði þeirra á sakarefninu. Hafa beri í huga að sakarefnið varði í reynd ákvæði sáttar sem aðilar máls gerðu með sér en ekki fyrirmæli laga eða reglugerða. Aðilar hafi forræði á því hvernig túlka beri einstök ákvæði hennar. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga almannahagsmuni. Virk samkeppni á fjarskiptamörkuðum sé þýðingarmikil fyrir neytendur en nánast allir landsmenn eigi viðskipti við fjarskiptafyrirtæki. Af dómi Landsréttar leiði að sátt leyfisbeiðanda og gagnaðila sé fallin úr gildi og að mati leyfisbeiðanda hafi það ófyrirséð áhrif á keppinauta gagnaðila á fjarskiptamarkaði.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.