Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-41

Superior slf. (Sigurður Jónsson lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Árborg (Sigurður Sigurjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Mannvirki
  • Byggingarleyfi
  • Skaðabætur
  • Skipulag
  • Stjórnsýsla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 16. mars 2023 leitar Superior slf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. mars 2023 í máli nr. 731/2021: Sveitarfélagið Árborg gegn Superior slf. og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta úr hendi gagnaðila vegna tjóns sem hann telur að megi rekja til mistaka sem gerð voru við hæðarútsetningu íbúðarhúss að Hraunhellu 19 á Selfossi. Saknæm háttsemi starfsmanna gagnaðila hafi leitt til þess að mistökin hafi komið seint fram og orðið til þess að ráðast þurfti í kostnaðarsamar framkvæmdir við að lækka malarpúða undir húsinu. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að gagnaðili hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar umsókn leyfisbeiðanda um breytingu á skipulagsskilmálum var synjað.

4. Héraðsdómur tók kröfu leyfisbeiðanda til greina og dæmdi skaðabætur að álitum. Landsréttur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Rétturinn vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 bæri eigandi mannvirkis ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur þess væri farið að kröfum laganna og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá bæri byggingarstjóra að hafa virkt eftirlit með því að þeir sem kæmu að byggingu mannvirkis fylgdu samþykktum hönnunargögnum, verklýsingum, ákvæðum laga um mannvirki og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Rétturinn taldi að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að leyfisbeiðandi hefði látið á það reyna hvort tillaga hans um lækkun á hæð hússins í 7,2 metra miðað við óbreyttan gólfkóta yrði samþykkt af hálfu gagnaðila. Þannig yrði ekki séð að hann hafi lagt fram þau gögn sem skipulags- og byggingarfulltrúi kallaði eftir í tengslum við umsóknina.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því sambandi vísar hann einkum til þess að með niðurstöðu sinni hafi Landsréttur lagt auknar skyldur á byggingarstjóra en ekki gert kröfur til þess að starfsmenn á vegum sveitafélaga viðhafi vönduð vinnubrögð. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og vísar til þess að eftir að þetta mál kom upp hafi vinnulagi við hæðarsetningar verið breytt til samræmis við það sem tíðkast hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.