Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-54
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Samlagsaðild
- Miskabætur
- Börn
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 27. mars 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 14. mars sama ár í máli nr. 972/2024: A gegn Reykjavíkurborg og íslenska ríkinu. Gagnaðili Reykjavíkurborg leggst gegn beiðninni. Gagnaðili íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi gagnaðila, aðallega óskipt en til vara hvorum um sig, og jafnframt um viðurkenningu á skaðabótaskyldu þeirra vegna líkamstjóns í skilningi 1. gr. laganna.
4. Með úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms staðfestur um frávísun málsins frá héraðsdómi. Í úrskurði Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi byggði á því að gagnaðilar hefðu valdið honum tjóni með samverkandi hætti og bæru því óskipta ábyrgð. Því væri tjón hans að rekja til sömu atvika og aðstöðu í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Landsréttur tók fram að mörg þeirra atvika sem leyfisbeiðandi reisti kröfur sínar á væru ekki nálægt í tíma og hvorki þáttur í sömu stjórnvaldsákvörðun né reist á sama lagagrundvelli. Yrðu kröfur hans því ekki taldar eiga rætur að rekja til sömu atvika. Væru kröfurnar í grunninn reistar á mismunandi athöfnum eða athafnaleysi þar sem ætlaður tjónvaldur væri ýmist sagður gagnaðili Reykjavíkurborg, gagnaðili íslenska ríkið og í einhverjum tilvikum mögulega báðir. Þótt á því væri byggt að ætluð skaðabótaskyld háttsemi gagnaðila hafi komið á ólögmætu ástandi, sem leitt hafi til ætlaðs tjóns hans, gæti það ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að kröfur hans teldust reistar á sömu aðstöðu í skilningi 1. mgr. 19. gr. laganna. Hefði leyfisbeiðandi því ekki með réttu getað stefnt gagnaðilum báðum í málinu til að þola dóm um kröfur sínar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og séu fordæmisgefandi. Jafnframt er á því byggt að úrlausn Landsréttar sé bersýnilega röng. Frávísun málsins vinni gegn markmiðum 19. gr. laga nr. 91/1991 og feli í sér að reka þurfi mál á hendur fleiri en einum samábyrgum tjónvaldi í fleiri málum en einu ef þeir eru ekki taldir hafa tekið þátt í nákvæmlega sama atburði. Réttarfarsreglur verði að vera skýrar og fyrirsjáanlegar um hvernig þeim sé beitt.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess geti haft slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 3. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.