Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-58

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Steinunni Ósk Eyþórsdóttur (Kristrún Elsa Harðardóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot
  • Akstur undir áhrifum lyfja
  • Ökuréttarsvipting
  • Refsiákvörðun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 17. apríl 2024 leitar ríkissaksóknari leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í máli nr. 496/2023: Ákæruvaldið gegn Steinunni Ósk Eyþórsdóttur. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sakfelld fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið svipt ökurétti og óhæf til að aka henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja. Fyrir héraðsdómi játaði hún þá háttsemi sem henni var gefin að sök og var farið með málið í samræmi við 164. gr. laga nr. 88/2008. Með dómi Landsréttar var henni gert að greiða 180.000 króna sekt. Talið var að akstur gagnaðila í umrætt sinn hefði ekki verið mjög vítaverður í skilningi 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Þá væru ekki nægar forsendur til að líta svo á að önnur skilyrði fyrir sviptingu ökuréttar samkvæmt ákvæðinu væru uppfyllt. Niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu ákæruvalds um ökuréttarsviptingu var því staðfest.

4. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar ekki samræmast 99. gr. umferðarlaga þar sem segi meðal annars að svipta skuli mann rétti til að stjórna ökutæki sem ökuskírteini þarf til ef hann hefur með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem ökumanns gerst sekur um vítaverðan akstur eða varhugavert teljist að hann stjórni vélknúnu ökutæki. Ákærða gerðist sek um akstur undir áhrifum lyfja og hafði lögregla afskipti af henni þar sem hún hafði bakkað bifreið sinni á annað ökutæki. Það er mat leyfisbeiðanda að dómur Landsréttar sé í andstöðu við dómvenju um ákvörðun refsingar og sviptingu ökuréttar fyrir brot af þessu tagi. Ríkissaksóknari hafi í fyrirmælum sínum til ákærenda litið til þeirrar dómvenju sem hér sé vísað til, sbr. fyrirmæli ríkissaksóknara nr. 5/2020. Leyfisbeiðandi telur sekt þá sem ákvörðuð var of væga auk þess sem svipta hefði átt ákærðu ökurétti í 6 mánuði fyrir lyfjaakstursbrotið. Að lokum bendir leyfisbeiðandi á að málum þar sem ökumenn eru undir áhrifum lyfja hafi fjölgað mikið undanfarin ár. Því sé afar mikilvægt að gætt sé samræmis í málsmeðferð lögreglu, ákæruvalds og dómstóla og að refsingar og önnur viðurlög fyrir brot sem þessi séu hæfileg.

5. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómsúrlausn í því um ákvörðun refsingar og kröfu ákæruvalds um sviptingu ökuréttar vegna aksturs undir áhrifum lyfja kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.