Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-18

Magnús Björn Brynjólfsson (sjálfur)
gegn
Vivaldi Íslandi ehf. (enginn) og LBI ehf. (enginn)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fasteign
  • Kvöð
  • Þinglýsing
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 19. febrúar 2024 leitar Magnús Björn Brynjólfsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, til að kæra úrskurð Landsréttar 6. sama mánaðar í máli nr. 894/2023: Magnús Björn Brynjólfsson gegn Vivaldi Íslandi ehf. og LBI ehf. Gagnaðilar taka ekki afstöðu til beiðninnar.

3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að þinglýst verði kvöð um endurgjaldslausan afnotarétt hans að hluta fasteignarinnar Hafnarstræti 20/Læk 5.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms, með vísan til forsendna hans, um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Hann höfðaði málið á grundvelli 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga eftir að þinglýsingarstjóri synjaði honum um leiðréttingu ætlaðra þinglýsingarmistaka á grundvelli 27. gr. þinglýsingalaga þar sem ekki hefði verið þinglýst sérstaklega sem kvöð afnotaréttindum leyfisbeiðanda samkvæmt afsali hans til LBI ehf. á eignarhluta sínum í fasteigninni. Leyfisbeiðandi byggði á því að mistök hefðu orðið við þinglýsingu annars vegar afsals hans sjálfs til forvera gagnaðila LBI ehf. og hins vegar afsals forvera gagnaðila LBI ehf. á heildareigninni Hafnarstræti 20/Lækjargötu 5 til gagnaðila Vivaldi Ísland ehf. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að af ákvæðum 31. og 11. gr. þinglýsingalaga mætti ráða að ekki yrði talið að um augljós þinglýsingarmistök hefði verið að ræða þegar þinglýsingarstjóri þinglýsti ekki sérstaklega umræddum afnotaréttindum, að eigin frumkvæði og án þess að athygli hans hefði verið vakin á þeim. Þar sem afnotaréttindunum hafði ekki verið þinglýst sérstaklega við þinglýsingu fyrra afsalsins mætti ætla að fasteignabók hefði ekki borið með sér neinar upplýsingar um þau. Stóð því þannig ekkert í vegi að afsali gagnaðila LBI ehf. til gagnaðila Vivaldi Íslandi ehf. yrði þinglýst athugasemdalaust og því ekki fallist á að um að augljós þinglýsingarmistök hefði verið að ræða við þinglýsingu þess afsals heldur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið geti haft fordæmisgildi. Hann vísar meðal annars til þess að dómari hafi brotið málsforræðisregluna en það sé ekki hlutverk dómara að annast hagsmunagæslu fyrir gagnaðila sem hafi látið sig málið varða í upphafi en síðan hætt afskiptum án þess að gera kröfur í héraði eða Landsrétti. Þá telur leyfisbeiðandi umrædda dómsathöfn bersýnilega ranga. Um formleg réttindi sé að ræða sem hafi verið sniðgengin af sýslumanni og gagnaðilum. Afsal hans til gagnaðila LBI ehf. hafi borið með sér að bóka hafi átt sérstaklega um afnotaréttinn og ekki sé fyrir hendi nein lagaheimild til að afmá þau.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.