Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-131

A (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)
gegn
B (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Fjárslit
  • Lögsaga
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 14. júlí 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 8. sama mánaðar í máli nr. 227/2025: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið varðar kröfu gagnaðila um að félagsbú hennar og leyfisbeiðanda verði tekið til opinberra skipta til fjárslita.

4. Með úrskurði héraðsdóms var frávísunarkröfu leyfisbeiðanda hafnað. Hins vegar var einnig hafnað kröfu gagnaðila um að félagsbú hennar og leyfisbeiðanda yrði tekið til opinberra skipta. Var sú niðurstaða á því reist að beiðninni væri ekki réttilega beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Landsréttur hafnaði einnig frávísunarkröfu leyfisbeiðanda en taldi að beiðni um opinber skipti væri réttilega beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Var fallist á kröfu gagnaðila um að fram skyldu fara opinber skipti til fjárslita vegna lögskilnaðar aðila á grundvelli lögjöfnunar frá 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 101. gr. laga nr. 20/1991.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi um hvort hægt sé að krefjast opinberra skipta til fjárslita þegar hjón eru skilin að lögum og fjárskipti hafi þegar farið fram erlendis. Þá kunni dómur Hæstaréttar að hafa fordæmisgildi um reglur réttarfars um afdráttarlausan málflutning og skuldbindingargildi dóma. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur héraðsdóms í máli nr. E-3112/2023 sé bindandi milli málsaðila um úrlausn ágreinings um fjárskipti og gagnaðili geti ekki nú, sbr. meginreglu 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 1., 2. og 4. mgr. 116. gr. sömu laga, freistað þess að fá hann endurskoðaðan við opinber skipti og byggt á nýjum málsástæðum sem henni var kleift að afla efnisúrlausnar um í fyrra málinu. Að lokum telur leyfisbeiðandi að úrlausn málsins kunni að hafa fordæmisgildi um hvort tímafrestir eigi við um kröfu um opinber skipti þegar lögskilnaður hefur verið veittur.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.