Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-171

Vélfag ehf. (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Jóhanna Katrín Magnúsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Þvingunaraðgerðir
  • Frysting fjármuna
  • Eignarréttur
  • Alþjóðasamningar
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 30. nóvember 2025 leitar Vélfag ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. sama mánaðar í máli nr. E-5581/2025: Vélfag ehf. gegn íslenska ríkinu. Leyfisbeiðandi leggst ekki gegn beiðninni.

3. Með dómi héraðsdóms var hafnað kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu ákvörðunar gagnaðila 3. október 2025 um að synja því að aflétta frystingu fjármuna í vörslum Arion banka hf. Ráðstöfunin var gerð á grundvelli laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna. Niðurstaða dómsins byggðist á því að 2. mgr. 12. gr. laganna væri bundin við skyldu utanríkisráðherra til að aflétta þvingunarráðstöfun gagnvart aðila sem bæri sama eða svipað nafn og sá aðili sem væri á þvingunarlista. Hins vegar taldi dómurinn að hvorki yrði af lagaákvæðinu sjálfu né öðrum ákvæðum sömu laga ályktað að skylda ráðherra væri víðtækari en við framangreindar aðstæður. Þá var talið að gagnaðili hefði með fullnægjandi hætti sýnt fram á að ákvörðun um að leyfisbeiðandi sætti þvingunaraðgerðum væri ekki byggð á nafnaruglingi og því væru skilyrði 2. mgr. 12. gr. ekki uppfyllt.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða í málinu hafi mikið fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu. Málið sé það fyrsta sem rekið sé fyrir dómstólum hér á landi um túlkun og beitingu laga nr. 68/2023 og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar ráðs Evrópusambandsins nr. 2024/2646 um þvingunaraðgerðir í ljósi aðgerða Rússlands sem grafa undan stöðugleika. Sú reglugerð var innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1439/2024 um breytingu á reglugerð nr. 893/2021 um þvingunaraðgerðir varðandi Rússland. Í héraðsdómi hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að það væri í verkahring Arion banka hf. að ákveða að aflétta frystingu og mál um slíkt yrði að reka gegn bankanum. Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að dómurinn sé rangur um hvar vald til að aflétta frystingu fjármuna liggur þar sem það fari í bága við reglur stjórnskipunar- og stjórnarfarsréttar að fela einkaaðilum eftirlits- og ákvörðunarvald um íþyngjandi aðgerðir sem ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðarétti til að beita innan lögsögu sinnar.

5. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna auk þess sem úrslit þess kunna að hafa verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá liggja ekki fyrir í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni leyfisbeiðanda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því samþykkt.